Hoppa yfir valmynd
19. maí 2021 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Nýsköpunar- og frumkvöðlamenntaverkefni til Menntavísindasviðs HÍ

Frá vinstri: Sigríður Ingvarsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Lilja D. Alfreðsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Kolbrún Þ. Pálsdóttir. - myndHáskóli Íslands / Kristinn Ingvarsson

Nýsköpunarhugsun og stuðningur við frumkvöðla er sífellt mikilvægari liður í uppbyggingu og þróun samfélagsins. Menntaverkefnum á því sviði verður sinnt af Menntavísindasviði Háskóla Íslands en á dögunum undirrituðu ráðherrar mennta- og nýsköpunarmála, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og háskólans viljayfirlýsingu þess efnis.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
„Það er ánægjulegt að það góða starf sem unnið hefur verið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í þágu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar, skuli nú vera tryggður áframhaldandi farvegur hjá Menntavísindasviði, með stuðningi tveggja ráðuneyta.  Við þurfum stöðugt nýjar lausnir og nýjar nálgun gagnvart áskorunum samfélagsins og það er okkar sameiginlega verkefni að þjálfa og hvetja námsfólk til að spreyta sig á sviði nýsköpunar og frumkvöðlamennsku.“

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Verkefni á borð við Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Samsýning framhaldsskólanna og Ungir frumkvöðlar hafa fest sig í sessi og skólar hafa tekið þeim fagnandi. Við viljum stuðla að kraftmikilli þróun á sviði nýsköpunar í skólum því hún er samofin mikilvægi menntunar og viljans til þess að gera betur. Slíkt rimar einnig vel við áherslur í nýrri menntastefnu.“  

Markmið þessa samstarfs er áframhaldandi stuðningur við nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í leik-, grunn- og framhaldsskólum og efling starfsþróunar kennara í nýsköpun og frumkvöðlamennt. Ráðuneytin gera með sér samkomulag til þriggja ára um skiptingu kostnaðar vegna þessara verkefna og er áhersla lögð á að þau þróist í takt við tæknibreytingar og þarfir skólasamfélagsins.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa enn fremur stóraukið fjárstuðning við rekstur stafrænna smiðja (e. Fab Lab) hringinn í kringum landið í samstarfi við framhaldsskóla, þekkingarsetur og nærsamfélag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira