Hoppa yfir valmynd
19. maí 2021 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður ME í máli Valdísar Fjölnisdóttur o.fl. gegn Íslandi

Í gær, 18. maí 2021, kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm í máli Valdísar Fjölnisdóttur o.fl. gegn Íslandi. Niðurstaða dómstólsins var sú að íslenska ríkið hafi ekki brotið gegn 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi fjölskyldunnar með því að hafna því að skrá tvær konur sem foreldra barns sem fæddist með hjálp staðgöngumóður og gjafakynfruma.

Í niðurstöðu dómstólsins er tekið fram að tengsl kvennanna og barnsins falli undir hugtakið fjölskyldulíf í skilningi 8. gr. Mannréttindasáttmálans, jafnvel þó að engin líffræðileg tengsl séu á milli þeirra. Hins vegar bendir dómstóllinn á að bann við staðgöngumæðrun í íslenskum lögum þjóni lögmætum tilgangi til verndar réttindum og frelsi annarra, þar sem það miði að því að koma í veg fyrir að konur verði þvingaðar til þess að gerast staðgöngumæður og tryggja rétt barna til þess að þekkja uppruna sinn. Enn fremur er vísað til þess að barnið hafi verið í fóstri hjá konunum og þannig hafi ríkið leitast við að viðhalda þeim tengslum sem komin voru á. Var íslenska ríkið því ekki talið hafa brotið gegn réttinum til fjölskyldulífs.

 

Dómurinn í heild sinni er aðgengilegur á vef Mannréttindadómstólsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum