Hoppa yfir valmynd
20. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hafa stytt biðlista eftir sálfræðiþjónustu barna verulega

Frá undirritun samningsins - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í október 2020, samning við SÁÁ með það að markmiði að veita börnum sem búa við fíknisjúkdóm aðstandenda aðgang að sálfræðiþjónustu samtakanna. Samningurinn gerir SÁÁ kleift að efla og bæta þjónustu við börnin á miklum álagstímum vegna Covid-19 faraldursins.

Markmiðið með samningnum var að stytta bið barna eftir sálfræðiþjónustu hjá samtökunum. Í mars 2020 voru rúmlega 100 börn á biðlista eftir sálfræðiþjónustu en í apríl 2021 voru einungis sex börn á biðlista. Þá hefur biðtími eftir þjónustunni styst verulega, og er nú um vika en var áður mest um fimm mánuðir.

Félagsmálaráðuneytið fjármagnar samkvæmt samningnum stöðu sálfræðings til þess að auka sálfræðiþjónustu til barna skjólstæðinga SÁÁ. Einnig fá foreldrar, sem leggjast inn á Vog eða fá göngudeildarþjónustu, kynningu á sálfræðiþjónustu barna og þeim sem eiga börn á aldrinum 8-18 ára er boðið að skrá þau í þjónustu hjá SÁÁ. Með samningnum er stefnt á að bjóða hverju barni upp á allt að átta viðtöl hjá sálfræðingi. Þjónustan er veitt bæði samhliða því sem foreldrar eru í áfengis- og vímuefnameðferð og þegar fjölskylda er á námskeiði í fjölskyldudeild.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „SÁÁ hefur verið að vinna algjörlega ómetanlegt starf, en við vitum að í faraldri á borð við Covid-19 eykst álag á okkur öll og ekki síst börn. Sálfræðiþjónusta fyrir börn sem búa við fíknisjúkdóm aðstandenda getur skipt sköpum fyrir börnin. Ég er gríðarlega ánægður að sjá hversu vel hefur tekist til með þetta verkefni og hefur tekist að stytta bið barna eftir sálfræðiþjónustu verulega og biðlistar heyra nánast sögunni til. “

 

  • Hafa stytt biðlista eftir sálfræðiþjónustu barna verulega - mynd úr myndasafni númer 1
  • Hafa stytt biðlista eftir sálfræðiþjónustu barna verulega - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum