Hoppa yfir valmynd
21. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór lagði áherslu á mikilvægi alþjóðasamstarfs á ráðherrafundi Evrópuráðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði í dag ráðherrafund Evrópuráðsins. Fundurinn er að þessu sinni haldinn í Hamborg en Þjóðverjar hafa leitt starf ráðsins síðastliðna sex mánuði. Vegna takmarkana vegna COVID-19 faraldursins ávörpuðu utanríkisráðherrar aðildarríkjanna fundinn hver frá sínu landi en utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, stýrði fundinum frá fundarstaðnum í Hamborg. 

Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi alþjóðasamstarfs og að heimsfaraldurinn hefði undirstrikað mikilvægi samvinnu þjóða. Evrópuráðið væri mikilvægur vettvangur í Evrópu til að styrkja þetta samstarf og til að tryggja að mannréttindi séu virt í allri Evrópu. 

„Á alltof mörgum stöðum verða einstaklingar fyrir áreitni, mismunun og ofbeldi vegna þess hver þau eru, hvern þau elska, hverju þau trúa eða einfaldlega fyrir að vinna sín störf,“ sagði Guðlaugur Þór. „Þetta felur meðal annars í sér kerfisbundin brot á mannréttindum og frelsi blaðamanna og fjölmiðlafólks og fólks í stjórnarandstöðu.“ 

Guðlaugur Þór tók einnig sérstaklega upp mikilvægi Istanbúl-samningsins fyrir aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi en samið var um samninginn á vettvangi Evrópuráðsins fyrir tíu árum. Harmaði ráðherra sérstaklega að Tyrkir hefðu dregið sig frá samningnum.

Ísland tekur nú sæti í yfirstjórn Evrópuráðsins þar sem það mun sitja til ársins 2024 en Ísland mun taka við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. 

Ávarp ráðherra má lesa hér á Stjórnarráðsvefnum.

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum