Hoppa yfir valmynd
26. maí 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ráðherra friðlýsir votlendissvæði Fitjaár

Ráðherra ásamt fulltrúum samstarfshóps og forstjóra Umhverfisstofnunar. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skrifaði í dag undir friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal, sem friðlands.

Undirbúningur að friðlýsingunni var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, Skorradalshrepps, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Skógræktarinnar og Ríkiseigna, auk landeigenda Fitja sem áttu frumkvæðið að friðlýsingunni.

Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar. Svæðið gegnir fjölbreyttu hlutverki í vistkerfum og er meðal annars mikilvægt búsvæði plöntu- og fuglategunda. Starungsmýravist, sem er blautt, þýft mýrlendi vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, er helsta votlendisvistgerð svæðisins og hefur mjög hátt verndargildi.

Við ósa Fitjaár er jafnframt fjölbreytt fuglalíf sem hefur einnig mikið verndargildi.

„Ég fagna frumkvæði heimafólks á Fitjum í Skorradal að friðlýsingu þessa einstaka svæðis hér í botni Skorradals. Heimafólk á Fitjum hefur hlúð að því í gegnum tíðina meðal annars með því að óska eftir því við Náttúrufræðistofnun Íslands að rannsaka gróðurfar votlendisins sérstaklega. Í mati stofnunarinnar segir að það fari ekki á milli mála að votlendið við árósa Fitjaár, þar sem hún fellur í Skorradalsvatn, sé mikið náttúrudjásn.  Því er ég sammála. Og þar sem votlendissvæði eiga víða undir högg að sækja er mikilvægt að tryggja vernd þeirra til framtíðar enda gegna þau mikilvægu hlutverki í vistkerfinu,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar sveitarfélagsins Skorradalshrepps, ásamt landeigendum, fulltrúum Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, en stækkunin hefur verið unnin í góðu samráði fulltrúa þessara aðila.

  • Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira