Hoppa yfir valmynd
26. maí 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Sótmengun minnkar á Norðurslóðum en losun metans eykst

Sérfræðihópur Norðurskautsráðsins um sót og metan hefur gefið út nýja skýrslu með mati á árangri og tillögum um framhald aðgerða. Í skýrslunni kemur fram að Norðurskautsríkin átta séu á réttri leið við að ná settu marki varðandi minnkun sótmengunar, en að losun metans sé á hinn bóginn að aukast, þvert á sett markmið.

Sót og metan eru í hópi svo nefndra „skammlífra hlýnunarvalda“, þar sem líftími þeirra í umhverfinu er miklu skemmri en t.d. koldíoxíðs og margra annarra gróðurhúsalofttegunda. Sót er almennt ekki talið með í umræðu um gróðurhúsalofttegundir. Losun þess getur þó valdið hlýnun sérstaklega á heimskautasvæðunum, þar sem sótagnir setjast á ís, drekka í sig hita frá sólgeislun og valda hraðari bráðnun en ella.

Sérfræðihópur til að fjalla um losun sóts og metans var settur á fót af Norðurskautsráðinu árið 2015 og fékk það verkefni að draga saman bestu fáanlegar upplýsingar um losun sóts og metans, meta árangur við að minnka losun og skila skýrslu með tillögum á tveggja ára fresti. Skýrsla hópsins sem lögð var fram til samþykkis á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík er hin þriðja sem út kemur.

Sett hafa verið markmið um minnkandi losun á sóti og metan fyrir ríkin átta í heild, en ekki skuldbindingar fyrir einstök ríki. Samkvæmt skýrslunni miðar vel í rétta átt varðandi sótmengun, þar sem ríkin hafa dregið úr henni um 20% frá 2013 til 2018 og spáð er 32% samdrætti til 2025. Þar var markið sett á 25-33% samdrátt og er útlit fyrir að það náist.

Sömu sögu er ekki hægt að segja varðandi metan. Þar er stefnt á að draga verulega úr losun, en hún jókst á hinn bóginn um 2% frá 2013 til 2018 og eykst að óbreyttu um 8% til 2025 samkvæmt spám.

Sótmengun á Íslandi hefur dregist saman um 9% frá 2013 til 2018 og ætti að minnka um 30% til 2025 samkvæmt framreikningum Umhverfisstofnunar. Losun metans dróst aðeins saman um 1% frá 2013 til 2018, en ætti að minnka um 16% til 2025 miðað við spár.

Í lok árs 2019 skrifaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra undir reglugerð um hertar kröfur varðandi eldsneyti í íslenskri landhelgi, sem bannaði í raun notkun svartolíu innan hennar frá og með 1. janúar 2020, nema viðeigandi hreinsun eigi sér stað. Það var m.a. gert til þess að draga úr sótmyndun.

Hópurinn leggur fram fjölmargar tillögur um hvernig efla megi aðgerðir til að draga úr losun sóts og metans. Almennt skiptir miklu máli að hætta notkun jarðefnaeldsneytis, en auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa – við rafmagnsframleiðslu, húshitun og í samgöngum á sjó og landi. Bætt meðferð úrgangs dregur úr myndun metans og mikilvægt er að safna og farga hauggasi þar sem urðun er enn við lýði. Einnig er mikil losun metans frá landbúnaði og þar þarf m.a. að efla rannsóknir og þróunarverkefni sem miða að minni losun vegna iðragerjunar í búpeningi. Gróðureldar hafa færst mjög í vöxt á Norðurslóðum og þarf að efla fyrirbyggjandi aðgerðir gegn þeim og auka viðbúnað til slökkvistarfa til að draga úr sótmyndun af þeirra völdum.

Formaður sérfræðihópsins hefur verið Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Rafn Helgason sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun er fulltrúi Íslands í hópnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira