Hoppa yfir valmynd
27. maí 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ávarp Guðmundar Ing Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi ÍSOR 2021

Ágæta stjórn, forstjóri og starfsfólk ÍSOR og aðrir góðir gestir.

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa þennan ársfund ÍSOR og mikið gleðiefni að geta verið hér með ykkur í dag.

Stefnumótun ÍSOR

ÍSOR er ein af lykilstofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Eins og formaður stjórnar ÍSOR kynnti hér áðan hefur stofnunin undanfarið ár unnið að stefnumótun, í víðtæku samráði við viðskiptavini og starfsfólk. Þið megið vera afskaplega stolt af þessari vinnu. Stefnumótunin er metnaðarfull og mun skipa ÍSOR í fremstu röð hvað varðar áherslu á sjálfbæra framtíð í orkumálum og ábyrga auðlindanýtingu.

Einkum og sér í lagi er ánægjulegt að sjá stofnunina taka upp á arma sína sex af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og setja sér það markmið að innleiða þau í allt sitt starf. Það er mjög mikilvægt að stofnanir ráðuneytisins horfi til heimsmarkmiðanna í öllu starfi sínu því þau vísa okkur veginn á mörgum sviðum.

Jarðhitaskólinn

Fyrr á árinu var undirritaður nýr þjónustusamningur ÍSOR við GRÓ – þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem fól í sér að ÍSOR tók yfir rekstur Jarðhitaskólans. Þetta eru tímamót og fellur skólinn mjög vel að starfsemi ÍSOR. Jarðhitaskólinn er nú rekinn í samstarfi við UNESCO. Yfirfærsla reksturs skólans var endapunktur á löngu umbótaferli sem hefur leitt af sér gerð þjónustusamninga við hýsistofnanir um rekstur allra fjögurra skóla GRÓ.

Starfsfólk ÍSOR þekkja vel til Jarðhitaskólans, því sérfræðingar stofnunarinnar hafa auðvitað í áraraðir sinnt þjálfun og kennslu nemenda skólans. Á þessu verður engin breyting þó svo reksturinn sjálfur heyri nú undir stofnunina.

Það er okkur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sönn ánægja að stofnuninni hafi verið falið þetta vandasama og mikilvæga verkefni, að stýra til frambúðar einni elstu og farsælustu stoð í þróunarsamvinnu Íslendinga. Um leið vil ég þakka Orkustofnun fyrir hennar ómetanlega framlag til uppbyggingar Jarðhitaskólans undanfarna áratugi.

Greinargerð skilað til landgrunnsnefndar SÞ

Í apríl sl. afhentu íslensk stjórnvöld endurskoðaða kröfugerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York hvað varðar afmörkun ytri marka landgrunnsins á Reykjaneshrygg utan 200 sjómílna. Greinargerðin var unnin undir stjórn utanríkisráðuneytisins en tæknileg vinna var að mestu unnin af sérfræðingum ÍSOR. Greinargerðin nær til landgrunns á stórum hluta Reykjaneshryggs suðvestur af landinu. Niðurstöðu landgrunnsnefndarinnar er að vænta innan nokkurra ára.

Þar með er aðkomu ÍSOR að þessu geysilega mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar þó ekki lokið því í framhaldinu verður unnin, aftur undir stjórn utanríkisráðuneytisins og með aðkomu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, greinargerð um afmörkun landgrunnsins á austurhluta Reykjaneshryggjar og á hinu umdeilda Hatton Rockall-svæði í suðri.

Vísindarannsóknir og undirbúningur hófst í lok síðasta árs fyrir þá greinargerð og verður unnið að því verkefni næstu ár. Vinna ÍSOR að greinargerðinni miðar, nú sem fyrr, að því að styrkja jarðfræðilegar röksemdir Íslands fyrir tilkalli okkar til þessara svæða.

Þetta er eitt af mörgum dæmum um það hversu mikilvæg og dýrmæt þekking ykkar hér á ÍSOR er, fyrir land og þjóð.

Gos á Reykjanesi

Við erum svo sannarlega minnt á það þegar eldgos geysa hve mikilvægt er að eiga öflugar rannsóknastofnanir á sviði jarðvísinda og hve nauðsynleg uppbygging rannsóknainnviða í náttúruvísindum er. Þar hefur ÍSOR svo sannarlega ekki látið sitt eftir liggja. Í samvinnu við tékknesku vísindaakademíuna settu sérfræðingar ÍSOR upp jarðskjálftamæla á Reykjanesi fyrir 8 árum og hafa þeir reynst mikilvæg viðbót við skjálftamæla Veðurstofu Íslands og annarra rannsóknastofnana í þeim umbrotum sem nú eiga sér stað á svæðinu.

Frá því að umbrotin hófust hefur ÍSOR tekið virkan þátt í rannsóknum, uppsetningu á ýmiss konar mælabúnaði og miðlun upplýsinga. Þessi þátttaka hefur einkum falist í miðlun niðurstaðna jarðfræðikortlagningar og rannsókna á gossögu Reykjanesskagans, uppsetningu skjálftamæla og rannsóknum á skjálftavirkni

Hér má einnig að ósekju nefna frumkvöðlavinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands að gerð þrívíddarlíkans af hinu nýja hrauni. Og nýju mælana sem Umhverfisstofnun hefur sett upp á undanförnum vikum, til þess að geta betur mælt loftmengun frá gosinu.

Hlut Veðurstofu Íslands vil ég að sjálfsögðu líka nefna, en samvinna stofnana og rannsóknir þvert á stofnanir og jafnvel lönd er eitt af aðalsmerkjum heilbrigðs vísindasamfélags og við í ráðuneytinu erum stolt af þessu ómetanlega framlagi og samvinnu stofnana okkar. Án ykkar væri skilningur okkar á umbrotunum á Reykjanesi mun fátæklegri en hann er. Takk fyrir það!

Samningar um jarðfræðikortlagningu

Samkvæmt nýrri stefnu ÍSOR, sem hér var kynnt, er samstarf einmitt lykilorð við innleiðingu eins þáttar nýju stefnunnar – auðlindakortlagningar – en kortlagning á auðlindum landgrunnsins, á mikilvægum jarðrænum auðlindum og á jarðminjum – er ein af grunnforsendum sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Það sem fyrst kemur upp í huga minn þegar minnst er á samstarfsverkefni um auðlindakortlagningu er hið árangursríka átaksverkefni ÍSOR og NÍ um jarðfræðikortlagningu, sem ýtt var úr vör 2019 og stóð í tvö ár eða til loka síðasta árs. Afurðir þeirrar vinnu voru þrjú útgefin berggrunnskort í skalanum 1:100.000, af Austurlandi og Mið-Íslandi, og rafrænt kort af Vesturgosbeltinu. Auk þessara þriggja korta voru mikilvæg skref tekin í berggrunnskortlagningu á Eyjafjarðarsvæðinu, NA-landi og á Mið-Suðurlandi.

Óhætt er að segja að átaksverkefnið hafi sýnt og sannað að kortlagningu af þessu tagi sé best borgið í náinni samvinnu stofnananna tveggja, enda hafa þær báðar á að skipa framúrskarandi sérfræðingum á þessu sviði og búa jafnframt yfir miklum gagnaauði sem nýta ber á sem skilvirkastan hátt samfélaginu öllu til heilla.

Það er mér mikil ánægja að tilkynna að ég skrifaði í morgun undir nýjan samning við stofnanirnar til næstu fimm ára.

Ég bind miklar vonir við að jarðfræðikortlagning hérlendis muni áfram njóta góðs af aukinni samvinnu stofnana, enda löngu kominn tími til að landið verði fullkortlagt líkt og flest önnur ríki heims.

Kæra starfsfólk ÍSOR.
Haldið áfram ykkar góða starfi og gangi ykkur allt í haginn á komandi misserum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira