Hoppa yfir valmynd
31. maí 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Börnin okkar og betra samfélag

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Ekkert í heiminum er mikilvægara en börnin okkar – vellíðan þeirra, hamingja og framtíðartækifæri. Það er skylda stjórnvalda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tómstundastarfi, njóti jafnra tækifæra óháð bakgrunni og félagslegum aðstæðum. Við viljum að öll börn fái örvun við hæfi, hvatningu og menntun sem leggur grunninn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Framsóknarflokksins eins og verkin sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjörtímabili höfum við breytt félagskerfinu og lagað að hagsmunum barna. Við höfum eflt og einfaldað þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, lengt fæðingarorlof, ráðist í kerfisbreytingar í skólakerfinu, stutt sérstaklega við fátæk börn og ráðist í mikilvæg verkefni til að styrkja stöðu barna af erlendum uppruna. Nýsamþykkt menntastefna tekur fyrst og fremst mið af þörfum barna og vinna er hafin við breytingar á samræmdu námsmati, þar sem hagsmunir stofnana munu víkja fyrir hagsmunum barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skólunum opnum, til að tryggja menntun barna og lágmarka áhrif heimsfaraldurs á líf þeirra. Það tókst og samanburður við önnur lönd sýnir glögglega að árangurinn er merkilegur, því víða voru skólar lokaðir með ófyrirséðum langtímaáhrifum á börn. Við höfum sagt lestrarvanda barna stríð á hendur og gripið til aðgerða til að efla lesskilning. Útgáfa nýrra barna- og unglingabóka hefur stóraukist vegna pólitískrar stefnu um stuðning við íslenska bókaútgáfu.

Það eru ekki nýjar fréttir að Framsóknarflokknum sé umhugað um börn og fjölskyldur landsins. Framsóknarflokkurinn innleiddi á sínum tíma feðraorlof, réttarbót sem þótti frumleg í fyrstu en öllum þykir sjálfsögð í dag. Ávinningur barna og foreldra af breytingunni er ómældur og fjölskyldutengslin sterkari.

En við viljum gera enn betur, fyrir börn úr öllum áttum. Búa svo um hnútana að öll börn fái jöfn tækifæri og þjónustu við hæfi, til dæmis sálfræðiþjónustu sem nú er bæði af skornum skammti og kostnaðarsöm fyrir foreldra. Slík þjónusta á að vera eins og önnur heilbrigðisþjónusta; aðgengileg fyrir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stigum hans, en ekki bíða eftir því að barnið vaxi og vandinn með.

Fullorðið fólk, bæði í fjölskyldum og flokkum, á að kenna börnum á lífið. Vekja forvitni þeirra og áhuga á heiminum, sjálfum sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrkleika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verkefni ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að láta sitt eftir liggja og við viljum að Ísland verði barnvænsta samfélag í heimi. Taktu þátt í því með okkur.

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. maí, 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum