Hoppa yfir valmynd
31. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

EFTA-ráðherrarnir funduðu um viðspyrnu vegna COVID-19

Viðspyrna vegna heimsfaraldursins var efst á baugi á fjarfundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem fram fór í dag. 

Á fundinum lögðu ráðherrarnir áherslu á þörfina á að standa vörð um alþjóðaviðskiptakerfið og þær reglur sem ríkin hafa sett sér til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins á alþjóðaviðskipti. Ráðherrarnir ítrekuðu sömuleiðis mikilvægi milliríkjaviðskipta sem byggjast á gagnsæi og skýrum leikreglum.

„Fundurinn í dag var ánægjulegur og gefur tilefni til aukinnar bjartsýni. EFTA á í fríverslunarviðræðum við ýmis ríki og möguleikarnir til að treysta enn frekar víðfemt fríverslunarnet Íslands eru miklir. Það eru góðar fréttir enda byggir efnahagsleg viðspyrna Íslands á auknum utanríkisviðskiptum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson eftir fundinn.

Ráðherrarnir undirstrikuðu mikilvægi þess að huga að markmiðum um sjálfbæra þróun, m.a. með tilliti til umhverfis, mannréttinda og réttinda launþega, þegar kemur að fríverslunarviðræðum samtakanna. Sú viðleitni ríkjanna héldi áfram í öllum fríverslunarviðræðum.

Samskiptin við Evrópusambandið, Bretland og önnur ríki voru einnig til umræðu á fundinum í dag. Ráðherrarnir voru einhuga um að halda áfram samvinnu við Evrópusambandið í COVID-19 tengdum aðgerðum, m.a. þegar kemur að útdeilingu bóluefna. Ráðherrarnir töldu hins vegar nýlega atburði þegar ESB gerði kröfu um útflutningsleyfi vegna bóluefna til EFTA-ríkjanna undirstrika þörfina á frekara kynningarstarfi á EES-samningnum.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir um viðræður um fríverslunarsamning við Moldóvu og lýstu að auki yfir vilja til þess að hefja fríverslunarviðræður við Kosóvó á síðari hluta þessa árs.
Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju með framgang viðræðna um útvíkkun fríverslunarsamnings við Chile en stefnt er að því að ljúka þeim sem fyrst. Þá lýstu ráðherrarnir yfir vilja sínum til þess að leggja lokahönd á fríverslunarsamninginn við Mercosur, tollabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Ráðherrarnir fögnuðu því að viðræður við Malasíu hefðu verið teknar upp að nýju og ræddu vilja sinn til að auka samstarf við Samband Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN), svo dæmi séu nefnd.

Þessu til viðbótar ræddu ráðherrarnir jafnframt um vilja til þess að auka enn frekar samstarf um upplýsingaskipti á milli ríkja komi upp mál sem krefjast þess og hafa ráðherrarnir samþykkt ráðherrayfirlýsingu þess efnis.

Eftir fund ráðherranna áttu þeir fund með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA þar sem viðskiptastefna EFTA var m.a. til umræðu. Sérstök áhersla var lögð á að stuðla að auknu gagnsæi og nánara samráði við þingmanna- og ráðgjafarnefndir EFTA. 

Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtentstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í Sviss.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum