Hoppa yfir valmynd
31. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tók þátt í fundi fjármálaráðherra OECD og ræddi viðbrögð við heimsfaraldri

Bjarni Benediktsson sat fjarfund fjármálaráðherra OECD í dag.  - mynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók í dag þátt í árlegum fundi fjármálaráðherra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Fundurinn, sem í ár er fjarfundur, stendur í dag og á morgun. Þar er einkum rætt um viðbrögð og lærdóma aðildarríkjanna af heimsfaraldri kórónuveiru en einnig er fundurinn kveðjufundur Angel Gurría, fráfarandi framkvæmdastjóra OECD, sem lætur af embætti 1. júní.

Bjarni sagði í ávarpi sínu á fundinum að síðastliðið ár hefði verið áminning um mikilvægi öflugrrar stofnanaumgjarðar og trausts almennings á hinu opinbera. Staða Íslands á tímum faraldursins hefði að mörgu leyti verið öfundsverð, en þrátt fyrir skarpan samdrátt hefði tekist vel til í viðbrögðum hvort sem litið væri til heilbrigðiskerfisins eða hagkerfisins. Þrátt fyrir að því hefðu fylgt kostir að vera eyríki þegar kæmi að því að hefta framgang faraldursins hefði sú staða einnig falið í sér áskoranir, en íslenska hagkerfið væri mjög lítið og opið og reiddi sig í ríkum mæli á virkni alþjóðahagkerfisins.

„Efnahagsleg viðbrögð við faraldrinum á Íslandi hafa markast mjög af sterkri fjárhagsstöðu opinberra aðila og einkageirans. Í viðbrögðum við faraldrinum nutum við góðs af því hafa síðastliðinn áratug náð að styrkja efnahagsreikninga ríkisins, fjármálastofnana, heimila og fyrirtækja,“ sagði Bjarni í ávarpi sínu.

Ráðherrafundurinn er jafnframt kveðjufundur fráfarandi framkvæmdastjóra OECD, Angel Gurría, sem gegnt hefur embættinu í 15 ár. Við Gurría tekur Mathias Cormann, sem er Belgi að uppruna en á að baki langan feril sem fjármálaráðherra Ástralíu. Búist er við að aðildarríkin leggi áherslu á loftslagsmál í framkvæmdastjóratíð hans, en hann hefur lýst einbeittum vilja til góðra verka þar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum