Hoppa yfir valmynd
1. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu áréttað á fundi Eystrasaltsráðsins

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti ávarp fyrir hönd Íslands í fjarveru Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - mynd

Mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda var meginstefið í ávarpi Íslands á fjarfundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins í dag.

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti ávarpið fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Þar lýsti hann ánægju Íslands með endurbætur á starfsháttum Eystrasaltsráðsins sem miða að því að gera það skilvirkara. Jafnframt lagði hann áherslu á aukið samstarf ráðsins við aðrar svæðisbundnar stofnanir. Í ávarpinu var undirstrikuð þýðing starfsemi Eystrasaltsráðsins á sviði barnaverndar, meðal annars í ljósi heimsfaraldursins en Ísland hefur um árabil verið leiðandi á því sviði innan ráðsins. Meðal annars hefur barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðildarríkjum ráðsins.

Á fundinum samþykktu utanríkisráðherrar Eystrasaltsráðsins sameiginlega yfirlýsingu þar sem mikilvægi ráðsins er áréttað. Innan þess fari fram margþætt pólitískt samráð auk hagnýtrar samvinnu ríkjanna á fjöldamörgum sviðum. Ráðherrarnir áréttuðu mikilvægi náinnar alþjóðlegrar og svæðisbundinnar samvinnu í ljósi COVID-19 faraldursins. Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um aðgerðir til að stemma stigu við alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Pólland, Þýskaland og Rússland, auk Evrópusambandsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira