Hoppa yfir valmynd
3. júní 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ávarp ráðherra: Framtíð rafeldsneytis á Íslandi

Ávarp ráðherra

Framtíð rafeldsneytis á Íslandi

Viðburður í tengslum við aðalfund Orkuklasans 3. júní kl. 13:00.

 

Kæru gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa þennan viðburð sem Orkuklasinn stendur fyrir, um framtíð vetnis og rafeldsneytis á Íslandi.

Ég vil þakka Orkuklasanum fyrir að setja þetta mál á dagskrá því svo sannarlega hefur mikil umræða verið að undanförnu um þessi mál. Bæði í tengslum við næstu áfanga okkar í orkuskiptum, áskoranir í orku- og loftlagsmálum og nýja verðmætasköpun.

Segja má að nýting rafeldsneytis, og þá sérstaklega vetnis, hafi verið í umræðunni um áratuga skeið, en ekki komist almennilega á flug fyrr en núna á síðustu mánuðum.

Eins og þið vitið var í lok síðasta árs kynnt tillaga um langtímaorkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050, sem unnin var í þverpólitísku samstarfi. Í byrjun árs lagði ég orkustefnuna fram á Alþingi, ásamt ítarlegri aðgerðaráætlun til að fylgja áherslum stefnunnar eftir.

Markmið orkustefnunnar eru bæði skýr og metnaðarfull. Þegar kemur að orkuskiptum þá ætlum við fyrir árið 2050 að vera alfarið óháð notkun jarðefnaeldsneytis.

Ég hef reyndar sagt að við ættum að ganga lengra og setja okkur það markmið að vera fyrsta landið í heiminum til að ná því markmiði. Til þess höfum við öll tækifæri, ef viljinn er fyrir hendi.

Ég hef komið inn á það áður að rafeldsneyti mun leika ákveðið lykilhlutverk við að ná þessu markmiði. Í aðgerðaráætlun orkustefnu er að finna sérstaka aðgerð sem snýr að rafeldsneyti og vetni, en það er aðgerð A-4 í kaflanum um Orkuskipti.

Þar segir að stutt verði „við rannsóknir og uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu sem einn af næstu áföngum í innlendum orkuskiptum, með áherslu á þungaflutninga og hafsækna starfsemi.“

Jafnframt að könnuð „verði uppbygging innviða í tengslum við framleiðslu og flutning á vetni til orkuskipta.“

Og að kannaðir verði „möguleikar á sviði útflutnings á grænu vetni til lengri tíma og tækifæri í alþjóðlegu samstarfi.“

Það má því segja að þessi tiltekna aðgerð um rafeldsneyti, í aðgerðaáætlun orkustefnu, sé þríþætt.

Vinna við þessa aðgerð er þegar hafin.

Þar má í fyrsta lagi nefna að í síðustu viku auglýsti Orkusjóður eftir styrkjum til orkuskipta, samtals að upphæð 320 milljónir króna. Þar voru meðal annars, í fyrsta sinn, sérstaklega auglýstir styrkir á sviði rafeldsneytis og orkugeymslu.

Í öðru lagi höfum við hafist handa við að uppfæra gildandi þingsályktun frá árinu 2017 um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Sú uppfærsla er í samræmi við áherslur úr orkustefnu. Okkur hefur almennt tekist vel til frá árinu 2017 með uppbyggingu innviða fyrir rafbílavæðingu og í næsta áfanga orkuskipta erum við meðal annars að horfa til þungaflutninga og hafsækinnar starfsemi. Það mun endurspeglast í uppfærðri þingsályktun á næsta vetri.

Í þriðja lagi vil ég hér nefna að til að fylgja eftir áherslum úr Orkustefnu og aðgerðaráætlun hennar, hef ég að auki ákveðið að láta vinna sérstakan Vegvísi fyrir vetni og rafeldsneyti.

Markmiðið með þeim Vegvísi er að ramma betur inn hvernig þessir orkugjafar geti leikið lykilhlutverk við að ná því markmiði að Ísland verði laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050, sem og aðra möguleika sem framleiðsla á vetni og rafeldsneyti kann að skapa með tilliti til innlendrar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni.

Hér er þannig um ákveðið „Roadmap“ að ræða, svo ég sletti, svipað og ýmsar nágrannaþjóðir okkar hafa nýlega unnið.

Ég tel að slíkur Vegvísir verði gagnlegur. Í fyrsta lagi til þess að kortleggja núverandi stöðu þessara mála hér á landi, og í öðru lagi til að gefa okkur ákveðna framtíðarsýn til næstu ára fyrir rafeldsneyti og hlutverk þess. Í byrjun er þar aðallega horft til innlendra orkuskipta, samanber markmið Orkustefnu, en einnig til lengri tíma varðandi skoðun á annarri nýtingu rafeldsneytis, eins og til dæmis útflutning á grænu vetni og öðrum nýsköpunartengdum orkuverkefnum.

Við vitum að það er mikill áhugi á þessum málum, bæði innanlands sem erlendis. Þess vegna er mikilvægt að vinna þennan Vegvísi á breiðum grunni og í góðu samráði við hagsmunaaðila.

Í fyrsta áfanga verkefnisins munum við meðal annars vinna með hinu alþjóðlega ráðgjafafyrirtæki Roland Berger, sem hefur víðtæka reynslu á þessu sviði, og Landsvirkjun, við að safna gögnum, kortleggja stöðu vetnis- og rafeldsneytismála á Íslandi og skoða hvaða hlutverk þessir orkugjafar geta gegnt í orkuskiptum á Íslandi. Öllum er frjálst á hvaða tímapunkti sem er að taka þátt í þessari vinnu, og koma á framfæri gögnum, upplýsingum og sjónarmiðum.

Í síðara áfanga verkefnisins verður haft nánara samráð við alla haghafa og í framhaldinu unnið að þróun eiginlegs Vegvísis um vetni og rafeldsneyti fyrir Ísland. Markmiðið er að snemma á næsta vetri verði unnt að kynna sérstakan Vegvísi stjórnvalda um hlutverk og framtíðarsýn vetnis og rafeldsneytis á Íslandi til næstu ára. Hann verður, eins og ég nefndi áðan, í beinu framhaldi af aðgerðaráætlun Orkustefnu og felur í sér innleiðingu á hluta af þeirri aðgerð hennar sem snýr að vetni, rafeldsneyti og orkuskiptum.

Kæru gestir,

Ég tel að hér sé um mikilvægt verkefni og tímabæra stefnumótun að ræða og að á grundvelli Vegvísis stjórnvalda um vetni og rafeldsneyti séum við í betri stöðu til að grípa fjöldamörg tækifæri sem blasa við okkur á þessu sviði, bæði innlend sem erlend. Tækifæri sem eiga það sameiginlegt að vera í samræmi við lykilstefnur stjórnvalda jafnt á sviði orkumála, loftlagsmála og nýsköpunar.

Ég hef áður komið inn á það að ef við ætlum í raun og veru að ná því markmiði að vera laus við jarðefnaeldsneyti fyrir 2050, og helst fyrr, þá kallar það á aukna framleiðslu á grænni endurnýjanlegri raforku. Jarðefnaeldsneytið hverfur ekki af sjálfu sér, eitthvað þarf að leysa það af hólmi.

Þetta er í raun pólitísk umræða sem að mínu mati verður ekki umflúin þegar við tölum um orku- og loftlagsmál. Ef til vill verður þessi umræða hluti af því sem kosið verður um í alþingiskosningum í september. Það er að segja: hvernig við ætlum með framsæknum og ábyrgum hætti að mæta þeim áskorunum og tækifærum sem blasa við okkur í orku- og loftlagsmálum.

Kæru gestir,

Ég læt þessu opnunarorð duga og hvet ykkur öll til að taka þátt í þeirri vinnu sem framundan er um mótun Vegvísis fyrir vetni og rafeldsneyti.

Ég vil þakka Orkuklasanum aftur fyrir þennan viðburð og hlakka til að hlýða á þau erindi sem flutt verða hér á eftir.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum