Hoppa yfir valmynd
3. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynntu ítarlegar aðgerðir fyrir gerendur ofbeldis

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Viðamiklar aðgerðir fyrir gerendur í ofbeldismálum voru kynntar í dag á opnum fundi ríkislögreglustjóra. Þær fela m.a. í sér hvatningarsamtöl forvarnateyma með geranda/sakborningi, þróun fræðsluefnis og áhættumatskerfis auk þess sem verkferlar lögreglu við að draga úr áhættu á frekari brotum sakborninga verða þróaðir áfram. Tillögurnar koma frá aðgerðateymi gegn ofbeldi sem sett var á fót í maí 2020 af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Teymið er skipað þeim Eygló Harðardóttur og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra.

Tæknileg innleiðing og hvatningarsamtöl með geranda

Tæknileg innleiðing er einn mikilvægasti þátturinn í tillögum aðgerðarteymisins. Leggur teymið til að byggt verði áfram á áhættumatskerfi, sem nefnist B-Safer/SARA:SV, sem lögreglan hefur verið að innleiða við mat á áhættu á ofbeldi í nánum samböndum. Í þeim tilgangi verður snjallforrit þróað fyrir lögreglumenn til notkunar á vettvangi til öflunar á nauðsynlegum gögnum. Einnig verði lögreglumenn þjálfaðir í öflun upplýsinga á vettvangi, notkun búkmyndavéla í heimilisofbeldismálum og ítarlegri skráningu upplýsinga í áhættumatskerfið.

Þá verði boðið upp á sérstök hvatningarsamtöl með geranda eða sakborningi af forvarnateymi, óháð sakamálarannsókn. Sakborningur mætti hafa lögmann með sér í viðtalinu en markmiðið yrði eingöngu að hvetja geranda til að hugsa um hvernig hann komst í þessa stöðu og benda á úrræði og leiðir til aðstoðar.  Eitt þeirra úrræða er Heimilisfriður, sem vinnur með gerendum ofbeldis en einnig yrði bent á sjálfstætt starfandi sérfræðinga og önnur úrræði sem gagnast geta sakborningi til að hætta ofbeldishegðun sinni.

Áhættumatskerfi og fræðsluefni verði þróað

Einnig leggur teymið til að þróað verði áhættumatskerfi á kynferðisbrotum fullorðinna. Kerfið myndi draga fram þjónustuþörf út frá fjölda og alvarleika áhættuþátta og styðja við ákvarðanatöku lögreglu þegar kemur að forvörnum í kynferðisbrotamálum, þá sérstaklega gegn börnum. Þá verði þróaðar leiðir til að draga úr áhættu á frekari brotum, kortlagðar leiðir til að láta samstarfsaðila og mögulega brotaþola vita af áhættu og tryggja þannig betur öryggi þeirra.

Að lokum leggur aðgerðarteymið til að Heimilisfriður og Anna Kristín Newton sálfræðingur fái styrk til vinnslu fræðsluefnis fyrir gerendur sem birt verði á vefnum 112.is. Anna Kristín, ásamt samstarfsfólki, er að undirbúa stofnun félagsskapar sem hefur fengið vinnuheitið Taktu skrefið til að aðstoða þau sem vilja breyta kynhegðun sinni og láta af kynferðislegu ofbeldi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er afskaplega mikilvægt að í boði sé markviss meðferð fyrir gerendur ofbeldis og að við bjóðum upp á úrræði þar sem gerendur fá faglega aðstoð við að ná tökum á hegðun sinni. Þá er einnig mikilvægt að lögregluþjónar séu þjálfaðir og með réttu tæknina sem hjálpar þeim í starfi sínu. Við þurfum að ráðast á ofbeldi frá öllum hliðum, án gerenda eru engir þolendur.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Ég tel mikilvægt að gripið sé til fyrirbyggjandi aðgerða í ofbeldismálum og bind miklar vonir við að þessar nýju áherslur muni skila árangri. Þetta eru erfið og flókin mál sem ekki verða leyst nema með því að vinna bæði með gerendum og þolendum ofbeldis. Aðgerðirnar fela í sér nýja nálgun eins og hvatningarsamtöl forvarnateyma við gerendur, aukna fræðslu og gerð fræðsluefnis, nýtt áhættumatskerfi og þróun á verkferlum lögreglu í slíkum málum. Mikilvægt er að styðja áfram við bakið á þolendum ofbeldis en það er ekki síður mikilvægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gagnvart gerendum.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum