Hoppa yfir valmynd
3. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra ávarpaði fund allsherjarþingsins gegn spillingu

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti í dag ávarp á sérstökum fundi í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Yfirlýst markmið fundarins er að skapa vettvang fyrir alþjóðasamfélagið til að ræða sameiginlegar áskoranir við að koma í veg fyrir og vinna gegn spillingu, og greina úrlausnir þeirra áskoranna.

Í ávarpi sínu benti ráðherra á að spilling hafi í gegnum tíðina verið útbreidd áskorun þegar kemur að efnahagslegri og félagslegri framþróun samfélaga. Lagði hann áherslu á að spilling grafi undan stofnunum lýðræðis, lýðræðislegum og siðferðislegum gildum og réttlæti.

Guðlaugur Þór fór yfir skuldbindingar Íslands og mikilvæga áfanga og benti jafnframt á að gegnum alþjóðasamstarf upplýsi stjórnvöld reglulega um framgang á Íslandi í þessum efnum, og að sú endurgjöf sem þannig fengist væri mikilvæg við að halda áfram að vinna að frekari úrbótum „Birtingarmynd spillingar er stöðugt að breytast og með nýrri tækni aukast tækifæri til slíkra brota þvert á landamæri. Fjölþjóðasamstarf skiptir því enn meira máli nú en áður. Engin þjóð getur tekist á við þessa ógn á eigin spýtur, við verðum öll að vinna saman og mun Ísland áfram taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn spillingu“ sagði Guðlaugur Þór.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu (UN Convention against Corruption - UNCAC) var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2003. Alþingi samþykkti aðild Íslands að samningnum árið 2010 og hann gekk í gildi hér á landi þann 1. mars 2011.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira