Hoppa yfir valmynd
7. júní 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hlutafjárútboð Íslandsbanka hafið

Merki Íslandsbanka - mynd

Útboð á rúmlega 636 milljón hlutum af hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka hófst í dag og stendur til 15. júní. Til viðbótar munu söluráðgjafar úthluta 10% af útboðsmagninu ef umfram eftirspurn verður í útboðinu. Þeir hlutir sem verða boðnir út nema þannig að hámarki 35% af heildarhlutafé bankans.

Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, og Íslandsbanki hf. birtu í dag lýsingu og tilkynntu stærð útboðsins og leiðbeinandi verðbil þess. Það er á bilinu 71-79 krónur á útboðshlut sem leiðir til að áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er um 150 milljarðar króna. Í síðasta ríkisreikningi er bókfært virði bankans 142 milljarðar. Venja er í útboðum sem þessum að birta verðbil í frumútboði.

Almenningur og hornsteinsfjárfestar taka þátt

Almenningi býðst þátttaka í útboðinu, en tekið verður við áskriftum allt niður í 50 þúsund krónur. Skv. ákvörðun ráðherra, að höfðu samráði við Alþingi, er stefnt að því að áskriftir almennings allt að einni milljón króna verði ekki skertar.

Enn fremur taka svonefndir hornsteinsfjárfestar þátt í útboðinu, en þar eru annars vegar íslenskir lífeyrissjóðir og hins vegar traustir og reynslumiklir erlendir aðilar.

Algengt er í Evrópu að virtir og leiðandi fjárfestingasjóðir taki þátt í útboðum sem þessum í hlutverki hornsteinsfjárfesta og skuldbindi sig þannig til að kaupa hluti í bankanum á útboðsverðbilinu. Slíkir fjárfestar eru allajafna langtíma fjárfestar og styður þátttaka þeirra við þátttöku annarra stærri fjárfesta og þannig bæði við magn og verð í útboðinu. Þá hafa hornsteinsfjárfestar tilhneigingu til að bæta við stöðu sína við frekari sölu.  Sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors, RWC Asset Management LLP, Gildi-lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna eru hornsteinsfjárfestar í útboðinu. Hefur hver hornsteinsfjárfestir, skuldbundið sig til að kaupa um 77, 31 og 46 milljón hluti i á endanlegu útboðsgengi.

Sala í samræmi við lög og stjórnarsáttmála

Allt söluandvirðið úr útboðinu rennur til ríkissjóðs, sem fer beint og óbeint með 100% af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans. Í lok útboðsins má áætla að hlutur ríkissjóðs í bankanum verði að lágmarki 65% af heildarhlutafé.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það er ánægjulegt að sjá hlutafjárútboð Íslandsbanka hefjast eftir mikla og vandaða vinnu síðustu mánuði. Það hefur lengi staðið til að draga úr umfangsmiklu eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði, en gert er ráð fyrir sölu hluta í Íslandsbanka í gildandi lögum, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki.

Útboðið er fyrsta skrefið í þá átt og færir okkur skrefi nær heilbrigðara umhverfi í betra samræmi við það sem þekkist á Norðurlöndunum og í öðrum nágrannaríkjum okkar. Með skráningunni verður íslenskur hlutabréfamarkaður stærri og fjölbreyttari, og það er jákvætt að fjárfestingarkostum almennings og fagfjárfesta fer sífellt fjölgandi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira