Hoppa yfir valmynd
8. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Lundey í Kollafirði friðlýst

Viðstödd friðlýsinguna voru auk ráðherra og ráðuneytisstjóra, borgarstjóri, formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, starfsfólk ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar ásamt fulltrúum úr samstarfshópi um friðlýsinguna. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Lundeyjar í Kollafirði sem friðlands. Verndargildi eyjunnar er ekki síst fólgið í mikilvægi hennar sem sjófuglabyggðar. Eyjan er í eigu ríkisins en var í konungseign fram eftir öldum.

Fjölskrúðugt varp sjófugla er í Lundey, en þar verpa m.a. rita, teista og æðarfugl sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt lunda, sem telst vera í bráðri hættu. Með friðlýsingunni á að vernda þetta mikilvæga bú- og varpsvæði, sér í lagi varpstöð lunda til framtíðar en hátt í 10.000 lundapör verpa í eynni.

Í Lundey vex fjöldi háplantna, m.a. haugarfi, vallarsveifgras, túnsúra, túnvingull og brennisóley og er þar að finna vel gróna bletti með sjaldgæfri blöndu gulstarar og haugarfa. Lundey liggur í innanverðum Kollafirði milli Geldinganess og Brimness á Kjalarnesi og er hið friðlýsta svæði 1,74 km2 og nær til eyjarinnar,fjörunnar, grunnsævis og hafsbotns umhverfis eyna.

Eyjar á Kollafirði hafa um langt árabil verið á náttúruminjaskrá, þ.e. Þerney, Lundey, Engey og Akurey, sem var friðlýst í maí 2019.

„Akurey á Kollafirði var fyrsta svæðið sem friðlýst var í átaki í friðlýsingum sem ég hratt af stað árið 2018 og nú er komið að systur hennar, Lundey. Hún ber nafn með rentu enda er eyjan mikilvægt bú- og varpsvæði lundans sem á undir högg að sækja og er friðlýsingin liður í að vernda tegundina hér á Íslandi,“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af Bernarsamningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu, samningnum um líffræðilega fjölbreytni og Ramsarsamningnum um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf.

Undirritun friðlýsingarinnar fór fram í Viðey í dag, næstu eyju sunnan við Lundey, að viðstöddum borgarstjóranum í Reykjavík, formanni umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, starfsfólki ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar ásamt aðilum úr samstarfshópi um friðlýsinguna.

 

 

  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.  - mynd
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri undirrita friðlýsingu Lundeyjar. - mynd
  • Lundey í Kollafirði - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum