Hoppa yfir valmynd
8. júní 2021 Félagsmálaráðuneytið

Styrkir tómstundastarf barna í viðkvæmri stöðu

Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi Hjálpræðishersins og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag samning við Hjálpræðisherinn þess efnis að boðið verði upp á tómstundastarf í sumar fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Þá undirritaði ráðherra einnig samning við Hjálparstarf kirkjunnar þar sem boðið verður upp á skipulagðar ferðir fyrir efnaminni barnafjölskyldur í sumarfríinu. Styrkirnir er hluti af aðgerðapakka sem ætlað er að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á afkomu efnaminni heimila í landinu.

Hjálpræðisherinn býður upp á leikjanámskeið í allt sumar bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Einnig er boðið upp á opið hús fyrir börn 11-15 ára á miðvikudögum. Í Reykjavík er Hjálpræðisherinn staðsettur í nýju húsnæði að Suðurlandsbraut 72  þar sem frístundastarfið fer fram. Í Reykjanesbæ fer námskeiðið fram í húsnæði Hjálpræðishersins að Ásbrú og er námskeiðið haldið í samvinnu við Reykjanesbæ. Áhersla verður lögð á að leita einstaklingsbundinna leiða til að ná til þess hóps sem hvað síst sækir reglubundið íþrótta- og tómstundastarf.

Hjálparstarf kirkjunnar veitir stuðning til barnafjölskyldna til þess að skapa góðar minningar og styðja við jákvæða samveru. Boðið er upp á skipulagðar ferðir fyrir barnafjölskyldur auk þess sem Hjálparstarfið aðstoðar fjölskyldur við að skipuleggja sín eigin sumarfrí með því að veita fjárstuðning til að leigja bíl, kaupa bensínkort, matarkort og afþreyingu. Mikil ásókn er meðal efnaminni fjölskyldna að þessu úrræði en margar hverjar hafa ekki ráð á að fara í sumarfrí án slíkrar aðstoðar. 

Allar nánari upplýsingar um starfið í sumar er hægt að nálgast á heimasíðu Hjálpræðishersins og á vef Hjálparstarfs kirkjunnar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ég fagna því að félagsmálaráðuneytið geti stutt við það mikilvæga starf sem Hjálpræðisherinn og Hjálparstarf kirkjunnar eru að vinna. Málefni barna eru mér mjög hugleikin, og ekki síst barna af efnaminni heimilum, og þetta verkefni snýst einmitt um að styðja við börn sem eru í viðkvæmri stöðu og þurfa hvað mest á stuðningi okkar að halda.“

Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi Hjálpræðishersins: „Styrkurinn gerir okkur kleift að halda úti öflugu sumarstarfi og nýtist til þess að jafna mun þeirra barna sem skráð eru á námskeiðið og veita þannig öllum börnum jöfn tækifæri til þess að sækja námskeið í sumar.“

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar: „Það er alveg frábært fyrir börnin að upplifa jákvæða orku með mömmu og pabba og kynnast sjálfum sér og fjölskyldunni betur í nýjum aðstæðum. Það er valdeflandi að upplifa að fjölskyldan getur gert ýmislegt saman. Það er líka mjög valdeflandi fyrir börnin að geta tekið þátt í umræðum með skólasystkinum um ævintýri sumarsins í upphafi skólaárs en þegar fólk býr við fátækt er því einmitt hættara við félagslegri útilokun.“

  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira