Hoppa yfir valmynd
9. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Fyrsti fundur landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu

Frá fyrsta fundi landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu hefur tekið til starfa og hélt sinn fyrsta fund í vikunni. Það er skipað af heilbrigðisráðherra og er ætlað að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á breiðum grundvelli um þessi mál. Á fyrsta fundi landsráðsins var starfið framundan skipulagt með hliðsjón af skipunarbréfi og rætt um helstu áherslumál við upphaf vinnunnar. Gert er ráð fyrir að landsráð skili heilbrigðisráðherra ár hvert tillögum að áætlun um aðgerðir í þágu mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu. Formaður landsráðsins er Bára Hildur Jóhannsdóttir.

Ákvörðun um skipun landsráðsins tengist meginefni heilbrigðisþings heilbrigðisráðherra árið 2020 þar sem mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu var meginumfjöllunarefnið. Ráðherra kynnti þar áform sín um að koma á fót landsráði um þetta efni með vísan til þess að áskoranir varðandi mönnun heilbrigðisþjónustunnar séu stórar og ljóst að þær verði viðvarandi viðfangsefni í framtíðinni. Landsráðið tengist einnig markmiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030 en líkt og þar er bent á er mönnun heilbrigðisþjónustu alþjóðleg áskorun þar sem samkeppni um starfsfólk í tilteknum fagstéttum fer vaxandi, samhliða margvíslegum breytingum sem tengjast starfsumhverfi, menntun og fleiru.

Meðal gagna sem landsráðið mun taka til umfjöllunar eru skýrslur sem unnar hafa verið í starfshópum á vegum heilbrigðisráðherra síðustu misseri um mönnun og menntun sjúkraliða, lækna og hjúkrunarfræðinga. Einnig verður fjallað um hagnýtingu fjarheilbrigðisþjónustu, eflingu teymisvinnu, starfsumhverfi heilbrigðisstétta, reglugerðir sem varða þessi málefni, mannaflaspár, verkaskiptingu, möguleika á tilfærslu verkefna og ímyndarmál svo eitthvað sé nefnt. Landsráðið er skipað til fjögurra ára. Gert er ráð fyrir að það fundi reglulega, að lágmarki 20 sinnum á ári. 

Landsráðið er svo skipað:

  • Bára Hildur Jóhannsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar
  • Anna Björg Aradóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
  • Valdimar O. Hermannsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Ragnheiður Bóasdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Svava Þorkelsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • Gísli Kort Kristófersson, tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði háskólasamfélagsins
  • Ólafur Baldursson, tilnefndur af heilbrigðisstofnun

Starfsmenn landsráðsins eru Dagmar Huld Matthíasdóttir og Ester Petra Gunnarsdóttir, sérfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira