Hoppa yfir valmynd
9. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Heildarstefna í úrgangsmálum komin út

Ráðherra, ráðuneytisstjóri og starfsmenn ráðuneytisins ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. - mynd

Ný heildarstefna umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálumÍ átt að hringrásarhagkerfi var gefin út í dag. Stefnan styður við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi og er lykilaðgerð í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi. Stefnunni er ætlað að stuðla að minni sóun verðmæta og því að gera Ísland að endurvinnslusamfélagi þar sem urðun verðmæta heyrir sögunni til.

Heildarstefnan sem gefin var út í dag skiptist í tvo meginhluta, stefnu um úrgangsforvarnir, sem ber heitið Saman gegn sóun, og stefnu um meðhöndlun úrgangs. Stefnan um úrgangsforvarnir, sem kom út árið 2016 og gildir til 2027 miðar að því að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Það er að hlutir og efni verði að úrgangi og er það til að mynda gert með aukinni nýtni, nægjusemi og minni sóun.

Hinn hluti heildarstefnunnar; stefna um meðhöndlun úrgangs, er nýr og kemur í stað Landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2013-2024. Hann gegnir veigamiklu hlutverki við innleiðingu hringrásarhagkerfis hérlendis og hefur þrjú meginmarkmið; að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu og að úrgangur sé meðhöndlaður á þann hátt að hann skapi ekki hættu fyrir menn eða dýr eða valdi skaða í umhverfinu.

Í apríl á þessu ári mælti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingar á lögum um úrgangsmál. Verði það að lögum nú á vorþingi verða 12 af 27 aðgerðum í stefnu um meðhöndlun úrgangs þá þegar lögfestar. Með þeirri endurbættu löggjöf verður skylda að flokka heimilsúrgang bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þá verða merkingar samræmdar alls staðar á landinu og bann sett við að urða flokkaðan úrgang. Þá verður ábyrgð framleiðenda og innflytjenda vara aukin þegar kemur að meðhöndlun úrgangs. Lagabreytingarnar stuðla að uppfyllingu markmiða Íslands í úrgangsmálum.

„Hringrásarhagkerfið er framtíðin og þessi stefna er lykilaðgerð í innleiðingu þess,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Verði frumvarp um hringrásarhagkerfið síðan að lögum á Alþingi á næstu dögum munum við loksins horfa fram á að flokkun heimilisúrgangs verði skylda, flokkun verði samræmd um allt land og það verði ekki lengur leyfilegt að urða þann úrgang sem þegar hefur verið flokkaður. Auk þess verður tekin upp sanngjarnari gjaldtaka þar sem þú borgar minna ef þú flokkar meira og hendir minna. Innleiðing þessarar stefnu er því nauðsynlegt og tímabært skref í átt að sjálfbærari auðlindanýtingu og minni losun gróðurhúsalofttegunda.“

Við undirbúning stefnunnar Í átt að hringrásarhagkerfi á undanförnum tveimur árum hefur verið haft samráð við fjölmarga aðila. Má þar nefna Umhverfisstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga, en sveitarfélög eru lykilaðilar við framkvæmd úrgangsmála á landsvísu.

„Sveitarstjórnir gegna lykilhlutverki í stjórnsýslu úrgangsmála.  Því fögnum við því að hér sé komin skýr, raunhæf og heildstæð stefna í úrgangsmálum.  Stefna sem unnin er í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við treystum á gott samstarf til framtíðar svo innleiðing stefnunnar verði farsæl í þessum viðamikla málaflokki,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Til að fylgja eftir útgáfu stefnunnar mun ráðherra skipa stýrihóp ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs, frjálsra félagasamtaka og annarra mögulegra haghafa. Hópnum verður m.a. falið að fylgja eftir framkvæmd stefnunnar og beita sér fyrir því að aðgerðum miði áfram.

Í átt að hringrásarhagkerfi

  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Aldís Hafsteinsdóttir. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum