Hoppa yfir valmynd
9. júní 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Prúðbúin ungmenni, með bros á vör, skjal í hendi og jafnvel húfu á höfði, hafa undanfarið sett svip sinn á borg og bæ. Tímamót unga fólksins eru sérlega táknræn í þetta skiptið, því skólaslit og útskriftir eru staðfesting á sigri andans yfir efninu. Staðfesting á samstöðu skólafólks, kennara, skólastjórnenda, nemenda og kennara í einhverri mestu samfélagskreppu síðari tíma. Á sama tíma berast góðar fréttir af bólusetningum, atvinnustigið hækkar, íþrótta- og menningarlíf er komið á skrið og ferðaþjónustan lifnar við. Og þegar litið er um öxl rifjast upp vetrarkveðja Páls Ólafssonar, sem auðveldlega má yfir færa á Covid-veturinn sem nú er að baki:

Margt er gott að muna þér
þó mér þú fyndist langur.
Farðu vel, þú færðir mér
fögnuð bæði og angur.


Fram undan er sumarið í allri sinni dýrð, tími hlýju, birtu og uppskeru. Og það er óhætt að segja að á hinum pólitíska vettvangi séu túnin græn og uppskeran góð. Verkefnalisti ríkisstjórnarinnar er svo til tæmdur. Framboðslistar Framsóknarflokksins eru skipaðir kraftmiklu fólki, þar sem blandast saman í réttum hlutföllum fólk úr ólíkum áttum. Reynsluboltar úr landsmálunum, dugmiklir sveitarstjórnarmenn og ungt fólk með sterkar hugsjónir. Við munum áfram vinna að framförum, berjast fyrir hagsmunum fjölskyldna af öllum stærðum og gerðum, og jafna tækifæri barna til menntunar.

Barnamálin hafa svo sannarlega verið okkur hugleikin á kjörtímatímabilinu. Barnamálaráðherra hefur lyft grettistaki og m.a. gert kerfisbreytingar svo hagsmunir barna séu í forgangi, en ekki þarfir kerfisins. Í skólamálum hafa skýrar línur verið markaðar, þar sem áherslan er lögð á ólíkar þarfir barna og stuðning við þá sem þurfa á honum að halda. Við viljum sjá framúrskarandi menntakerfi og með nýrri menntastefnu höfum við lagt veginn í átt að árangri.

Þessi vetur sem nú er liðinn minnti okkur hins vegar á að til að ná árangri þarf að berjast með kjafti og klóm. Við lögðum gríðarlega áherslu á að halda skólunum opnum, til að tryggja menntun barna og lágmarka áhrifin á líf þeirra. Það tókst og samanburður við önnur lönd sýnir glögglega að árangurinn er merkilegur, því víða voru skólar lokaðir með ófyrirséðum langtímaáhrifum á börn. Þessi vetur kenndi okkur að þegar allir leggjast á eitt, þá er menntakerfið okkar gríðarlega sterkt afl sem stendur vörð um hagsmuni barnanna á hverjum einasta degi.

Það er því ekki að ástæðulausu að um mann fer gleðistraumur, þegar maður sér leik-, grunn-, framhalds- og háskólaútskriftarmyndir á samfélagsmiðlum. Stoltir foreldrar og frelsinu fegnir unglingar. Ungmenni sem eiga framtíðina fyrir sér, horfa stolt í myndavélina. Eftir erfiðan vetur er þetta afrek okkar allra – samfélagsins alls – og því má aldrei gleyma.

-

Greinin birtist Morgunblaðinu 9. júní 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira