Hoppa yfir valmynd
10. júní 2021 Forsætisráðuneytið

Þrír sérfræðingar gera úttekt á reynslunni af starfi nefnda Seðlabanka Íslands ​

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að gera úttekt á reynslunni af starfi nefnda Seðlabanka Íslands.

Mælt er fyrir um skipan nefndarinnar í lögum um Seðlabanka Íslands sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2019. Þar segir að forsætisráðherra skuli fyrir lok árs 2021 flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laganna, m.a. með hliðsjón af skiptingu verkefna á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar. Meta skuli sérstaklega reynsluna af varúðar- og viðskiptaháttaeftirliti innan bankans og mögulega orðsporsáhættu vegna þess.

Tryggvi Pálsson hagfræðingur hefur verið skipaður formaður nefndarinnar en auk hans sitja í nefndinni Þórhildur Hansdóttir Jetzek hagfræðingur og Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður. Nefndin skal skila forsætisráðherra skýrslu sinni eigi síðar en 30. nóvember nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira