Hoppa yfir valmynd
11. júní 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

8 milljarðar endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti – mest greitt vegna íbúðarhúsnæðis

Um átta milljarðar króna hafa verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, Endurgreiðsluhlutfall VSK af vinnu vegna nýbyggingar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði var hækkað úr 60% í 100% og endurgreiðsluheimildir voru jafnframt rýmkaðar en breytingarnar gilda til ársloka 2021.

Mest hefur verið endurgreitt vegna nýbyggingar og viðhalds húsnæðis, eða um 5,8 milljarðar króna. Alls hafa um 39 þúsund umsóknir verið afgreiddar vegna íbúðarhúsnæðis frá umsækjendum með 100% endurgreiðslu.

Umfang stærstu stuðningsaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er nú ríflega 95 milljarðar króna. Hlutabætur eru þar umfangsmestar en næst kemur frestun skattgreiðslna, stuðnings- og viðbótarlán, greiðsla launa á uppsagnarfresti, tekjufalls-, viðspyrnu og lokunarstyrkir. Undanfarna mánuði hafa rúmir 15 milljarðar króna verið greiddir í tekjufalls- og viðspyrnustyrki, sem ætlað er að aðstoða rekstraraðila, þ.m.t. einyrkja, sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Um 2,5 milljarðar króna hafa verið greiddir í lokunarstyrki.

Auk þessa hafa yfir 27 milljarðar króna verið greiddir út af séreignarsparnaði en heimild til úttektar hans gildir út árið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum