Hoppa yfir valmynd
11. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID: Allir hafi fengið boð um bólusetningu 25. júní

Frá bólulsetningu í Laugardalshöll - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Í lok þessarar viku hafa um 215.000 einstaklingar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19 og tæplega 129.000 einstaklingar eru fullbólusettir. Markmiðum afléttingaráætlunar stjórnvalda um að 75% þeirra sem áformað er að bólusetja samkvæmt reglugerð hafi fengið bólusetningu síðari hlutann í júní hefur því náðst. Tæp 77% hópsins, sem eru rúm 61% landsmanna hafa fengið að minnsta kosti einn bóluefnaskammt eða eru með mótefni. Áætlað er að þann 25. júní hafi allir í skilgreindum bólusetningarhópi fengið boð um bólusetningu. Upplýsingar um staðfestar afhendingaráætlanir bóluefna voru uppfærðar á vef Stjórnarráðsins í dag. Nú liggur fyrir hvað berst af bóluefnum frá Pfizer og Moderna í júlímánuði. Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa lánað Íslendingum 24.000 skammta af bóluefni Janssen. Áður höfðu Norðmenn veitt að láni 16.000 skammta af bóluefni AstraZeneca. 

Framvinda bólusetninga í júní, júlí og ágúst

Júní: Nú stendur yfir bólusetning í árgangshópum sem eftir eru í forgangshópi 10 samkvæmt reglugerð nr. 1198/2020, um bólusetningar á Íslandi, en þeir hafa verið boðaðir með handahófskenndum hætti. Samhliða því hefur þeim sem hafa ekki þegið bóluefni eða af öðrum ástæðum ekki mætt í bólusetningu og tilheyra öðrum forgangshópum verið boðið aftur í bólusetningu.

Ekki liggur fyrir hvort og þá hvenær börn á aldrinum 12-15 ára verða bólusett en ákveðið hefur verið að einstaklingar í þessum aldurshópi með undirliggjandi langvinnan sjúkdóm sem eru í sérstökum áhættuhópi verð boðin bólusetning í júní.

Til skoðunar er að auglýsa opinn bólusetningardag til að ná til þeirra sem ekki hefur reynst unnt að boða með SMS skilaboðum eins og á við um hluta erlendra ríkisborgara sem dvelja og/eða starfa hér á landi. Eins verður komið til móts við þá sem hafa fengið fyrri bólusetningu í erlendu ríki en vilja fá síðari bólusetninguna hér.

Í júní verður bólusett með bóluefnum Pfizer, Janssen og Moderna. AstraZeneca verður aðeins notað til að bólusetja þá sem eiga eftir að fá síðari bólusetningu.

Júlí: Í júlí er fyrirhugað að fullbólusetja alla sem fengið hafa fyrri bólusetningu. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að hefja endurgreiðslu bóluefnis AstraZeneca sem fengið var að láni hjá Norðmönnum.

Ágúst: Í ágúst er gert ráð fyrir að bjóða þeim einstaklingum bólusetningu sem ekki hafa nýtt sér fyrri boð af einhverjum ástæðum. Með því verður m.a. hægt að koma til móts við þá sem óskað hafa eftir bólusetningu með annarri tegund en þeim stóð upphaflega til boða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum