Hoppa yfir valmynd
12. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um iðnaðarhamp orðið að lögum

  - myndStjórnarráðið

Alþingi samþykkti í dag frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem felur í sér að stjórnsýsla og verkefni sem varða innflutning á hampfræjum til ræktunar á iðnaðarhampi flyst frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar. Við lagasetninguna var horft til þess að iðnaðarhampur er ekki ávana- og fíkniefni heldur nytjaplanta og því eðlilegra að fræ til ræktunar á honum falli undir lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sem Matvælastofnun hefur eftirlit með.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti á liðnu ári Lyfjastofnun undanþáguheimild með breytingu á reglugerð nr. 233/2001 sem gerði innflutning fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulegan. Heimildin var háð skilyrðum þannig að tryggt væri að ekki yrðu fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2%.  Ráðherra lagði áherslu á að reglugerðarbreytingin væri tímabundin ráðstöfun. Ávana- og fíkniefnalöggjöfin hefði skýr markmið og tilgang sem félli augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Það gerði ræktun iðnaðarhamps hins vegar ekki. Því væri nauðsynlegt að skýra lagagrundvöll og ábyrgð þeirra stofnana sem þurfa að koma að framkvæmdinni þegar kemur að leyfisveitingum og eftirliti með ræktun iðnaðarhamps.

Á grundvelli nýsamþykktra laga er gert ráð fyrir að ráðherra landbúnaðarmála setji reglugerð sem kveði á um veitingu leyfis til innflutnings á fræjum af tegundinni Cannabis sativa og skuli þar m.a. koma fram nánari skilyrði og takmarkanir á innflutningi, meðferð og vörslu þeirra fræja sem lögin ná til.

Í áliti velferðarnefndar kemur fram að í allflestum umsögnum sem nefndinni bárust um frumvarp heilbrigðisráðherra hafi því verið fagnað: „Tekið var undir að málaflokkurinn ætti heima hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá var bent á að sökum undanþáguheimildar með breytingu á reglugerð nr. 233/2001, sem gerði innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega, hefði ræktun hér á landi gengið vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum