Hoppa yfir valmynd
12. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsustefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi

Alþingi - myndStjórnarráðið

Samþykkt var á Alþingi í dag tillaga Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030. Tillagan var samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum. Lýðheilsustefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Lýðheilsustefnan er liður í því að ná þessu markmiði, jafnframt því að stuðla að markvissri umræðu um lýðheilsu í samfélaginu. Með lýðheilsu er vísað til heilsueflingar og forvarna sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er.

Samkvæmt ályktuninni felst framtíðarsýn um lýðheilsu meðal annars í því að lýðheilsustarf verði metið með því að mæla gæði þess, öryggi, árangur, aðgengi, kostnað og kostnaðarhagkvæmni. Lögð er áhersla á að í lýðheilsustarfi á Íslandi verði jafnrétti og jöfnuður hafður að leiðarljósi.

Lýðheilsustefnan tekur mið af uppbyggingu þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þar sem megináhersluþættir eru forysta til árangurs, rétt þjónusta á réttum stað, fólkið í forgrunni, virkir notendur, skilvirk þjónustukaup og gæði í fyrirrúmi.

Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu aðila sem að málum koma. Eins og heilbrigðisráðherra lagði áherslu á í framsöguræðu með þingsályktunartillögunni byggist lýðheilsustarf á þverfaglegu samstarfi og samvinnu í samfélaginu: „Góð lýðheilsa er ekki aðeins háð lifnaðarháttum þjóðarinnar og góðu heilbrigðiskerfi heldur skipta félags- og efnahagslegir þættir, eins og menntunarstig, atvinna, jöfnuður og félagsleg tengsl, miklu máli“ sagði ráðherra og benti einnig á að margvíslegir umhverfisþættir hafi mikil áhrif. Því sé það mikilvægt markmið stjórnvalda að tekið sé tillit til lýðheilsusjónarmiða í allri áætlanagerð og stefnumótun. 

Vaxandi heilbrigðisvandi vegna langvinnra sjúkdóma

Heilbrigðisvandi vegna langvinnra sjúkdóma hefur farið vaxandi og leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfið á síðustu áratugum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur langvinna sjúkdóma, eins og hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, lungnasjúkdóma og sykursýki og geðsjúkdóma, vera eina helstu ógn við heilsu manna. „Skýr og markviss stefna sem miðar að því að efla og bæta lýðheilsu er brýnt heilbrigðis- og  hagsmunamál fyrir þjóðina og við þurfum að haga allri okkar vinnu í samræmi við það. Því er nauðsynlegt að stefnumótun fyrir lýðheilsu hvíli á traustum grunni og ríkja þarf sátt um þau sjónarmið sem eru leiðarljós lýðheilsustefnu á Íslandi til ársins 2030“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum