Hoppa yfir valmynd
15. júní 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikið hagræði fólgið í leigu á húsnæði fyrir Skattinn og Fjársýsluna

Teikning af fyrirhuguðu húsnæði Skattsins og Fjársýslu ríkisins. - mynd

Leiga á nýju húsnæði fyrir Skattinn og Fjársýslu ríkisins hefur í för með sér aukið hagræði og minni áhættu fyrir ríkissjóð. Með flutningunum verður unnt að reka starfsemina í um þriðjungi minna húsnæði en nú er, og tækifæri skapast til að selja óhagkvæmt húsnæði á dýru markaðssvæði.

Samningur um nýtt skrifstofuhúsnæði fyrir Skattinn og Fjársýslu ríkisins í Katrínartúni 6 var undirritaður í síðustu viku af Ríkiseignum og Íþöku fasteignum. Samningurinn er í samræmi við það fyrirkomulag sem fylgt hefur verið um árabil að leigja á almennum markaði ósérhæft skrifstofuhúsnæði fyrir starfsemi ríkisstofnana fremur en að ríkissjóður fjármagni sjálfur byggingu eða kaup á slíku húsnæði með tilheyrandi áhættu og fjárbindingu.

Áhætta og viðhald á forræði leigusala

Má þar nefna að leigusali tekur á sig alla áhættu af hönnun og framkvæmd vegna húsnæðisins ásamt því að annast viðhald og rekstur á eigninni út leigutíma. Samningurinn um leigu nýs húsnæðis fyrir stofnanirnar tvær skapar einnig töluverð tækifæri til þess að losa eða selja annað óhagkvæmt húsnæði á vegum ríkisins á dýru markaðssvæði, en um er að ræða Tollhúsið við Tryggvagötu og húsnæði Skattsins við Laugaveg.

Undanfarin fimm ár hefur ríkið tekið á leigu rúma 22 þúsund fermetra á höfuðborgarsvæðinu undir starfsemi Sýslumanns, Hafrannsóknarstofnunar, Tryggingastofnunar, Sjúkratrygginga og Vegagerðarinnar. Ríkið hefur með þessu sparað fjárbindingu upp á yfir tíu milljarða og þar með minnkað lánsfjárþörf ríkissjóðs sem því nemur.

Á vegum ríkisins eru jafnframt í gangi mörg sérhæfð framkvæmdaverkefni, ekki síst í tengslum við fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. Má þar nefna nýjan meðferðarkjarna Landspítalans, heilsugæslustöðvar og samgöngumannvirki. Eðlilegt þykir að ríkið standi sjálft að slíkum sérhæfðum mannvirkjum en að öðrum ósérhæfðum verkefnum sé útvistað.

Hagkvæmast að leigja á markaði

Framkvæmdasýsla ríkisins vann frumathugun á húsnæðisþörf Skattsins eftir hefðbundu ferli opinberra framkvæmda. Þar voru nokkrir valkostir greindir, þar á meðal endurbætur núverandi húsnæðis, viðbygging við Tollhúsið, nýbygging og leiguhúsnæði. Var niðurstaða frumathugunar sú að hagkvæmast væri að leigja á markaði að teknu tilliti til leiguverðs, fjárbindingar við nýbyggingu og verðmæti þeirra eigna sem Skatturinn fer úr við flutning.

Samningurinn um nýtt húsnæði fyrir Skattinn og Fjársýsluna tryggir að ríkið fær afhent fullbúið, nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði til notkunar eftir 18 mánuði. Með þessum breytingum mun Skatturinn fara úr samtals 15.000 fermetrum á þremur stöðum niður í 9.700 fermetra húsrými. Þá mun Fjársýslan fara úr 2.900 fermetrum niður í 2.000 fermetra.

Á sjöunda þúsund fermetrar sparast

Ljóst er að hér er verið að ná fram mikilli hagræðingu í húsnæðismálum þessara stofnana með því að færa þær í nútímalegt og sveigjanlegt vinnuumhverfi. Þannig nemur húsrýmissparnaðurinn rúmlega þriðjungi af núverandi húsrými eða um 6.200 m².

Húsnæðið sem mun hýsa Skattinn og Fjársýsluna er í byggingu og verður afhent í desember 2022. Samningurinn um leigu þess er til 30 ára með framlengingarákvæði. Var skrifstofuhúsnæðið valið að undangengnu opnu og almennu leiguferli sem Framkvæmdasýsla ríkisins hélt utan um sem faglegur og miðlægur aðili á sviði á framkvæmda og húsnæðisöflunar ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira