Hoppa yfir valmynd
15. júní 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ný heildarlög um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, til nýrra heildarlaga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Með lögunum færist málsmeðferð vegna umhverfismats framkvæmda nær því sem þekkist í nágrannaríkjunum.

Lögin fela í sér ýmis nýmæli við umhverfismat framkvæmda og má þar nefna valkvætt forsamráð framkvæmdaaðila og stjórnvalda um ferli framkvæmdar. Eins er gert ráð fyrir notkun rafrænnar gáttar fyrir umhverfismat, skipulagsáætlanir og leyfisveitingar. Reglur um málskot eru þá einfaldaðar og heildarferli umhverfismats stytt frá eldri löggjöf, meðal annars með því að falla frá kröfu um frummatsskýrslu.

Til að auka skýrleika hafa framkvæmdaflokkar verið endurskoðaðir í hinum nýju lögum og er þeim fækkað úr þremur í tvo. Er þannig fallið frá notkun C-flokks framkvæmda, þ.e. að framkvæmdir séu tilkynningarskyldar óháð stærð og staðsetningu. Skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdar verða nú bindandi gagnvart leyfisveitanda og er það í samræmi við tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda.

Mikil áhersla var lögð á víðtækt samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila við samningu laganna. Árið 2018 hóf umhverfis- og auðlindaráðuneytið undirbúning að heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum með hugarflugsfundi þar sem fulltrúar félagasamtaka, framkvæmdaaðila, sveitarfélaga og stofnana og annarra hagaðila, auk háskólafólks ræddu þær áherslur sem leggja þyrfti við endurskoðun laganna. Í kjölfarið var leitað eftir hugmyndum og athugasemdum í opnu samráðsferli. Lögin sem Alþingi samþykkti byggja á vinnu starfshóps umhverfis- og auðlindaráðherra sem skipaður var í ársbyrjun 2019. Í starfshópnum áttu sæti, auk formanns, fulltrúar frá frjálsum félagasamtökum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Skipulagsstofnun.

„Ég tel að með sameiningu laga um mat á umhverfisáhrifum annars vegar og umhverfismat áætlana hins vegar í eina heildarlöggjöf séum við að stíga heillavænleg skref fyrir umhverfið. Ekki síst er mikilvægt að skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmda verða nú bindandi þegar leyfi eru gefin út. Þá er líka með samþykkt laganna tryggt að horfa skuli til loftslagssjónarmiða við skipulagsgerð og til víðerna, enda ætlum við okkur að standa vörð um þau verðmæti okkar,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Lögin öðlast gildi þann 1. september nk.

Umhverfismat framkvæmda og áætlana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira