Hoppa yfir valmynd
15. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda

   - myndHaraldur Jónasson / Hari

Birt hefur verið til umsagnar skýrsla starfshóps heilbrigðisráðherra með tillögum að heildstæðu framtíðarskipulagi heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda. Þar eru m.a. skilgreind viðfangsefni fyrsta, annars, og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu út frá samfelldum forvörnum til endurhæfingar og bata. Til grundvallar tillögunum liggur samþætting fræðilegra kenninga og þekkingar um þróun vímuefnanotkunar  barna og ungmenna og samspil áhættu og verndandi þátta í því ferli. Frestur til að skila umsögnum er til 29. júní næstkomandi. Í framhaldinu mun heilbrigðisráðuneytið vinna aðgerðaáætlun um framkvæmd tillagnanna.

Heilbrigðisráðherra skipaði starfshópinn sem unnið hefur að þessu verkefni fyrir réttu ári og skilaði hópurinn ráðherra skýrslu með tillögum sínum á fundi í gær. 

Rétt og tímanleg þjónusta

Skýrslan er tvískipt. Í fyrri hlutanum er fjallað um fræðilegan grunn tillagnanna. Síðari hluti skýrslunnar tekur mið af frumvarpi til laga um þjónustu í þágu farsældar barna sem nú er orðið að lögum frá Alþingi. Horft er til svokallaðra fjölskylduhúsa að fyrirmynd Norðurlandaþjóða sem gætu verið fyrirmynd að samvinnulíkani á þessu sviði. Þar er byggt á því að ólíkir samstarfsaðilar á ábyrgð ríkis og/eða sveitarfélaga þrói heildstæðan þjónustuferil (e. care pathway) frá fyrsta stigi til þriðja stigs þjónustu fyrir börn og fjölskyldur. Fyrsta stigs þjónusta er veitt í nærumhverfi. Tillögur starfshópsins byggja á þessari stigun og bestu þekkingu um þjónustuþarfir barna og ungmenna með vímuefnavanda. Tillögum starfshópsins er ætlað að leiða til þróunar réttrar þjónustu, á réttum tíma, af réttum gæðum, veitta af réttum fagaliðum fyrir börn og ungmenni sem nota vímuefni eða hafa þróað með sér vímuefnavanda. Tillögurnar taka mið af lykilviðfangsefnum í samþykktri Heilbrigðisstefnu til 2030 og er að finna í lok hvers tölusetts kafla skýrslunnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira