Hoppa yfir valmynd
18. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Aukin þekking á borgaraþjónustu og jákvæðni í garð alþjóðasamvinnu

Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpar 74. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna haustið 2019 - myndUNTV

Tvöfalt fleiri segjast þekkja vel til borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar nú en á fyrstu stigum heimsfaraldursins og allur þorri fólks segist mundu leita til hennar ef það lenti í vanda erlendis. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri viðhorfskönnun um utanríkismál og alþjóðasamstarf sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið. Íslendingar eru almennt jákvæðir fyrir alþjóðlegri samvinnu, ekki síst á vettvangi Norðurlanda, og þrír af hverjum fjórum telja að hagsæld Íslands byggist á alþjóðlegum viðskiptum. Könnunin var gerð dagana 10. til 26. maí síðastliðinn og eru niðurstöður hennar að mestu í samræmi við sambærilegar kannanir sem gerðar voru 2020 og 2019.

Alls segjast 16,8 prósent Íslendinga nú þekkja vel til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, samanborið við 8,6 prósent árið 2020. Þá segjast 33,5 prósent þekkja í meðallagi til þjónustunnar, samanborið við 23,1 prósent árið 2020. Með borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins er átt við þá þjónustu sem utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur Íslands og ræðismenn veita íslenskum ríkisborgurum sem búa eða eru á ferðalagi erlendis, en undanfarin misseri hefur starfsemi borgaraþjónustunnar markast verulega af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þess má geta að utanríkisþjónustan aðstoðaði hátt í tólf þúsund Íslendinga erlendis vegna faraldursins á síðasta ári.

Spurt var um bæði þekkingu svarenda á hinum ýmsu alþjóðastofnunum sem og viðhorf til þátttöku Íslands í starfsemi þessara stofnana. Niðurstöðurnar sýna að eftir því sem þekking er meiri reynast viðhorfin almennt jákvæðari.

Þátttaka Íslands í alþjóðlegu samstarfi nýtur áfram afgerandi stuðnings meirihluta þjóðarinnar og þá telur mikill meirihluti Íslendinga að hagsæld Íslands byggist að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (72,5%) og alþjóðlegum viðskiptum (74,6%).

Sem fyrr eru Íslendingar sérstaklega jákvæðir í garð norræns samstarfs, en 89,8 prósent landsmanna eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku Íslands í Norðurlandasamstarfi. Þá segjast 75,6 prósent vera jákvæð gagnvart aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, 72,3 prósent eru jákvæð gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í störfum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og 70,1 prósent eru jákvæð gagnvart þátttöku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þá segjast 51,4 prósent jákvæð gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO, en 15,9 prósent neikvæð. Alls segjast 43,1 prósent eru jákvæð gagnvart varnarsamstarfi Íslands við Bandaríkin, en 21,4 prósent neikvæð, og þá eru 50,4 prósent jákvæð gagnvart norrænu varnarsamstarfi en einungis 5,2 prósent neikvæð.

Sérstaklega var spurt um Evrópusamstarf og segjast 42,7 prósent vera jákvæð gagnvart Evrópusambandinu og 26,1 prósent neikvæð. Þá mælist stuðningur við EES samninginn nú 54,9 prósent, en 12,4 prósent segjast neikvæð gagnvart aðild Íslands að samningnum. Þegar spurt er um ástæður þess að fólk er jákvætt gagnvart EES samningnum nefna flestir möguleika til náms og vinnu, frelsi í viðskiptum og vöruverð. Þau sem eru neikvæð gagnvart EES samningnum nefna helst óþarfa tilskipanir/reglugerðir og yfirráð yfir auðlindum.

Markmið könnunarinnar er að bæta upplýsingamiðlun til almennings um störf og stefnu utanríkisþjónustunnar.

Hér má nálgast helstu niðurstöður könnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum