Hoppa yfir valmynd
21. júní 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Gestastofu náttúruverndarsvæða komið á fót í Mývatnssveit

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Árni Bragason, Landgræðslustjóri, Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, setti í dag formlega af stað uppbyggingu gestastofu á Skútustöðum í Mývatnssveit. Ríkið festi í byrjun ársins kaup á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit sem upphaflega gegndi hlutverki barnaskóla sveitarinnar og eru breytingar á húsnæðinu hafnar.

Að breytingunum loknum mun Gígur hýsa gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit, auk starfsaðstöðu fyrir starfsfólk þjóðgarðsins og þriggja annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins; Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (Ramý).

Áhersla á endurnýtingu og hringrásarhagkerfi

Í stað hefðbundinnar skóflustungu að nýrri gestastofu tóku umhverfis- og auðlindaráðherra og forstjórar stofnanna fjögurra, auk sveitarstjóra Skútustaðahrepps, sér verkfæri í hönd og tóku niður hurðir á því sem áður voru hótelherbergi en munu verða skrifstofurými fyrir stofnanirnar. Hurðunum hafa þegar verið fundnar nýjar hjarir á öðrum stað í Mývatnssveit, í anda hringrásarhagkerfisins.

Allt kapp hefur verið lagt á að nýta innréttingar og innanstokksmuni í húsinu ellegar finna þeim nýjan stað eða nýtt hlutverk annars staðar. Húsið, sem áður hýsti Skútustaðaskóla, stendur á einstökum útsýnisstað við Mývatn og þóttu kaup á því hagstæður kostur fyrir ríkissjóð sem gætu um leið skapað tækifæri í Mývatnssveit. Skútustaðahreppur hefur áform um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig gefst möguleiki á að útbúa þar starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, t.d. á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila.

Þjónustunet Vatnajökulsþjóðgarðs með sex meginstarfsstöðvum

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Þegar hafa meginstarfsstöðvar í Ásbyrgi, Skaftafelli, á Skriðuklaustri og Hornafirði verið settar á laggirnar og bygging meginstarfsstöðvar á Kirkjubæjarklaustri er hafin. Með uppbyggingu gestastofu í Mývatnssveit er því búið að fullnusta uppbyggingu þessa mikilvæga þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs.

„Á Gíg tekst okkur ekki bara að finna gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit varanlegt heimili heldur lítur út fyrir að þarna geti orðið suðupottur hugmynda og starfstöðvar margra ólíkra stofnana“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Aðferðafræðin sem er viðhöfð við uppbygginguna á Gíg er auk þess skínandi dæmi um hringrásarhagkerfið að verki og það finnst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá.

  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sveinn Margeirsson, sveitastjóri Skútustaðahrepps.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira