Hoppa yfir valmynd
23. júní 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ný heildarlög um skip samþykkt á Alþingi sem einfalda lagaumhverfi

Alþingi samþykkti nýlega stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um ný heildarlög um skip en lögin taka gildi 1. júlí nk. Með lögunum er kominn heildstæður lagabálkur sem inniheldur allar helstu reglur er eiga við um skip.

Markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Þá er þeim ætlað að veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiða af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að skipum.

Einn megintilgangurinn með nýju lögunum er að einfalda lagaumhverfi skipa og koma ákvæðum þeirra í ein lög. Þau sameina efni fjögurra eldri laga sem komin voru til ára sinna en þau eru: Lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002 og lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Þá eru felld brott ýmis sértæk lög sem ekki er nauðsynlegt að séu í lagasafni. Í lögunum eru einnig gerðar ýmsar breytingar sem taka mið af rafræna stjórnsýslu sem Samgöngustofa sinnir. 

Einföldunin er í liður í umfangsmikilli vinnu ráðuneytisins við að einfalda og uppfæra víðtækt regluverk sem byggir á gildandi lögum.

Við þinglega meðferð lagafrumvarpsins var samþykkt undanþága, sem heimilar ráðherra að undanþiggja safnskip, þ.e. skip 50 ára og eldri sem rekin eru í menningarlegum tilgangi, frá tilteknum kröfum laganna og reglna sem byggja á þeim.

Reglugerðir um nánari kröfur

Með lögunum voru tiltekin ákvæði felld brott úr lagatexta og verða þau færð í reglugerðir. Ýmis ákvæði laganna voru einnig uppfærð og einfölduð þannig að meginreglur laga væru skýrar en nánari útfærsla kynnt með reglugerðum. Er þar einkum átt við upptalningu á skilyrðum og upplýsingum sem ber að veita við umsóknir. Með þessu móti verða skilyrði aðgengilegri fyrir notendur laganna sem þurfa þá ekki að leita bæði í lög og reglugerðir til að finna þessi skilyrði.

Á grundvelli eldri laga eru settar fjölmargar reglugerðir sem útfæra nánar kröfur sem gerðar eru um skip. Á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Samgöngustofu verður áfram unnið að því að einfalda og uppfæra þetta víðtæka regluverk í heild þannig að það verði aðgengilegra fyrir þá sem starfa eftir þessum reglum..

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira