Hoppa yfir valmynd
29. júní 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afkoma ríkissjóðs lituð af áhrifum faraldurs

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2020 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Samkvæmt ríkisreikningi var afkoma ársins neikvæð um 144 ma.kr. samanborið við jákvæða afkomu upp á 42 ma.kr. árið 2019. Tekjur án fjármunatekna námu 802 ma.kr. og rekstrargjöld námu 990 ma.kr. Hrein fjármagnsgjöld námu 46 ma.kr. og hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins nam 90 ma.kr.

 


Á vormánuðum 2020 brustu allar meginforsendur áætlana í efnahags- og ríkisfjármálum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá þegar hafði dregið úr þenslu sem myndaðist samhliða hröðum vexti ferðaþjónustunnar. Ferðamönnum hafði þá fækkað, m.a. vegna minni umsvifa og síðar gjaldþrots flugfélagsins WOW air. Minni efnahagsumsvifa sá fljótt stað í verri afkomu ríkissjóðs. Engu að síður var útlit fyrir að hagkerfið myndi fljótt ná vopnum sínum að nýju í upphafi árs. Þegar komið var vel inn á árið 2020 var hins vegar ljóst að Ísland, líkt og heimsbyggðin öll, stæði frammi fyrir djúpstæðu efnahagsáfalli. 

Ríkisstjórnin einsetti sér frá upphafi að beita ríkisfjármálastefnunni af krafti til að styðja við hagkerfið, bjarga störfum, verja fjárhag heimilanna og skapa viðspyrnu fyrir verðmætasköpun í kjölfar kreppunnar. Með því að beita styrk ríkisfjármálanna var dregið úr efnahagssamdrættinum og áhrifum hans á fjárhag heimila og fyrirtækja. Þetta öfluga viðbragð átti m.a. ríkan þátt í því að árið 2020 dróst innlend eftirspurn aðeins saman um 2% og ráðstöfunartekjur heimilanna jukust. 

Í krafti sterkrar stöðu ríkissjóðs þurfti ekki að skerða þjónustu hins opinbera og tilfærslukerfin voru varin þrátt fyrir mikið tekjufall. Þannig var staðinn vörður um grunnþjónustu ríkisins á sama tíma og gripið var til umfangsmikilla efnahagsaðgerða til að mæta áhrifum faraldursins með það að markmiði að tryggja afkomu heimila og veita fyrirtækjum skjól og viðspyrnu. Ráðist var í umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum og útgjöld til rannsókna og þróunar aukin verulega til þess að örva umsvif og skapa forsendur fyrir öflugum efnahagsbata að faraldrinum loknum. Áhrif þessara aðstæðna og nauðsynlegra aðgerða sjást glögglega á niðurstöðu ríkisreiknings 2020

segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings. 

Tekjur á árinu 2020 

Tekjur án fjármunatekna drógust saman um 28 ma.kr. frá fyrra ári og námu 802 ma.kr. Þar af drógust skattar, tryggingagjöld og aðrar ríkistekjur saman um alls 29 ma.kr. en tekjur af starfsemi jukust um 1 ma.kr. Samdráttur varð í flestum liðum skatttekna, mestur í virðisaukaskatti og fjármagnstekjuskatti. Tryggingagjöld drógust einnig saman, sem og eignatekjur, sektir og ýmsar aðrar tekjur. Þegar niðurstaðan er aðlöguð fjárlagagrunni sem byggist á GFS-staðli fæst út að tekjur af sköttum og tryggingagjöldum urðu 76 ma.kr. undir upphaflegri áætlun fjárlaga. Niðurstaðan er þó hagstæðari en síðustu uppfærðar áætlanir bentu til og var í heild 13 ma.kr. umfram stöðu áætlunar í lok árs.

Afkoma ársins 2020 

Afkoma ársins var neikvæð um 144 ma.kr. en árið 2019 var hún jákvæð um 42 ma.kr. Gjöld fyrir fjármagnsliði námu 990 ma.kr. og hækkuðu um 181 ma.kr. á milli ára. Helstu skýringar hækkunarinnar eru aukin útgjöld vegna atvinnuleysis og stuðningsaðgerða við fyrirtæki, alls 81 ma.kr. Annar kostnaður vegna faraldursins nam 35 ma.kr. Þá hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkisins um 33 ma.kr. á milli ára vegna áhrifa kjarasamninga. 

Eignir í árslok 2020 námu 2.613 ma.kr. og aukast um 258 ma.kr. á milli ára. Handbært fé jókst um 108 ma.kr. á milli ára og eignarhlutir í félögum hækkuðu um 106 ma.kr., þar af 70 ma.kr. vegna Seðlabanka Íslands. Þá hækkuðu fastafjármunir um 30 ma.kr., að mestu vegna fjárfestingar í samgöngumannvirkjum. Eigið fé nam 238 ma.kr. og lækkar um 124 ma.kr. frá fyrra ári. Langtímaskuldir hækkuðu um 143 ma.kr. og skammtímaskuldir um 215 ma.kr. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 110 ma.kr., dróst saman um 164 ma.kr. Handbært fé í árslok nam 378 ma.kr. og hækkaði um 108 ma.kr. Fjármögnunarhreyfingar eru jákvæðar um 266 ma.kr. í samanburði við 27 ma.kr. árið 2019.

Afkoma ríkissjóðs 2020 betri en útlit var fyrir 

Þess ber að geta að rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt á grunni reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli (GFS). Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Til að bera afkomu ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi saman við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga þarf því að aðlaga niðurstöðu ríkisreiknings að hagskýrslustaðlinum. Á þeim grunni var í fjárlögum ársins 2020 gert ráð fyrir að heildarafkoma yrði neikvæð um 10 ma.kr. Niðurstaða ársins reyndist hins vegar neikvæð um 218 ma.kr. en sá mikli halli skýrist nær alfarið af áhrifum faraldursins. Þá er vert að minnast á að útlit var fyrir að afkoman yrði enn verri eða sem nemur ríflega 50 ma.kr. Það kom fram í endurmetinni áætlun ársins sem birt var í nóvember 2020. Betri afkoma en óttast var um tíma skýrist m.a. af árangursríkum efnahagsaðgerðum sem milduðu efnahagssamdráttinn og þar með áhrifin á ríkissjóð umtalsvert. 

Undirstöður fyrir öfluga viðspyrnu 

Neikvæð áhrif rekstrarniðurstöðu ársins 2020 eru engu að síður veruleg og mun afkoma og skuldastaða ríkissjóðs bera þess merki næstu ár. Því er mikilvægt að hafa í huga það leiðarstef viðbragða og aðgerða stjórnvalda sem er að mæta áhrifum faraldursins af krafti án þess þó að velta kostnaði aðgerða yfir á komandi kynslóðir. Með öflugu viðbragði hefur tekist að lágmarka tjón af völdum kórónuveirufaraldursins og leggja undirstöður fyrir öfluga viðspyrnu að honum loknum. 

Nýr og aðgengilegur vefur um fjármál ríkisins

Samhliða birtingu ríkisreikningsins er opnaður nýr vefur um fjárhags- og mannauðsupplýsingar ríkisins á rikisreikningur.is. Vefurinn er uppfærsla á fyrri vef og er þar ætlunin að birta ýmsan fróðleik um rekstur og mannauð ríkisins með það að markmiði að einfalda aðgengi almennings að þessum upplýsingum. Á vefnum eru helstu niðurstöður ríkisreiknings dregnar saman, auk þess sem ítarlegri greiningar á ákveðnum málefnum eru aðgengilegar. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um fjármál ríkisins eftir málefnum, tegundum, ráðuneytum og ríkisaðilum. Þar eru aðgengilegar ýmsar lykiltölur, svo sem um mannauð ríkisins, en t.d. er hægt að skoða yfirlit yfir fjölda starfsmanna og stöðugilda hjá ríkinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum