Hoppa yfir valmynd
30. júní 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á opnun Kynslóðar jafnréttis

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður viðstödd opnunarviðburð ráðstefnu franskra stjórnvalda um átaksverkefnið Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum), í París Frakklandi í dag. Ísland er eitt forysturíkja verkefnisins og veitir aðgerðabandalagi um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi forystu ásamt Bretlandi, Kenía og Úrúgvæ. Frönsk og mexíkósk stjórnvöld fara ásamt stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women, með yfirstjórn verkefnisins.

Forsætisráðherra kynnir á morgun skuldbindingar Íslands í tengslum við verkefnið þar sem áhersla er lögð á stefnumótun og lagasetningu sem hefur m.a. að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum, forvarnir, bætt aðgengi þolenda að þjónustu og aukinn stuðning við samtök kvennahreyfingarinnar.

Forsætisráðherra mun einnig eiga fund með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, á meðan á dvöl hennar stendur í Frakklandi.

Þá mun forsætisráðherra flytja opnunarávarp á málþinginu: Færum völdin: Leiðtoga til leiðtoga (Shifting Power: Leader to Leader) sem UN Women og Heimsráð kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) standa fyrir. Málþingið fer fram á morgun, 1. júlí, og er haldið í tengslum við ráðstefnu Kynslóðar jafnréttis.

Kynslóð jafnréttis er stærsta verkefni UN Women hingað til og meðal helstu áherslumála aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres. Átakið stendur yfir í fimm ár og er skilgreint í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkafyrirtæki voru valin á grundvelli umsókna til að leiða aðgerðabandalög um verkefni á sex málefnasviðum. Markmiðið er að vinna markvisst að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sex árum eftir að ríki heims komu sér saman um markmiðin sautján hefur komið í ljós að markmiðið um kynjajafnrétti er það markmið sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga lengst í land með.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira