Hoppa yfir valmynd
30. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundi NORDEFCO lokið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (2. f.v.) ásamt varnarmálaráðherrum hinna NORDEFCO-ríkjanna - myndVarnarmálaráðuneyti Finnlands

Staða og framvinda samstarfsverkefna, samstarfið við Bandaríkin, fjölþáttaógnir og horfur í alþjóðamálum voru efst á baugi ráðherrafundar í  í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO) sem lauk í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir fundinn staðfesta hversu styrkum fótum samstarfið standi.

Fundurinn norræna varnarsamstarfsins NORDEFCO fór fram í Tuusula í útjaðri Helsinki og var það í fyrsta sinn sem varnarmálaráðherrar Norðurlandanna koma saman til fundar allt frá því í nóvember 2019. Finnland fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu í ár. 

„Norðurlöndin eru okkar nánustu vina- og samstarfsríki og við deilum sameiginlegri sýn á ástand öryggis- og varnarmála í okkar heimshluta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Farið var yfir stöðu og framvindu samstarfsverkefna á fundinum, stefnumótun ríkjanna í málefnum norðurslóða og stöðu öryggismála. Þá var umræða um Atlantshafstengslin og samstarfið við Bandaríkin, fjölþáttaógnir og öryggispólitísk málefni sem efst eru á baugi um þessar mundir í fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál. 

Í dag ávarpaði Sauli Niinistö forseti Finnlands fundinn og voru umræður í kjölfarið stöðu öryggismála í Norður-Evrópu og viðbrögð Norðurlandanna hvað það varðar. 

„Norðurlöndin hafa verið að þétta raðirnar í öryggis- og varnarmálum á undanförnum árum og norræna varnarsamstarfið hefur vaxið og sannað gildi sitt. Fundurinn sýndi glöggt hversu þétt samstarfið er og hve mikla samleið ríkin eiga í öryggis- og varnarmálum,“ segir Guðlaugur Þór. Á fundinum undirrituðu Finnland og Noregur nýtt tvíhliða samkomulag um varnarsamstarf ríkjanna en í því sambandi má nefna að í fyrra undirrituðu Finnland, Noregur og Svíþjóð samkomulag sín á milli á vettvangi samstarfsins um að auka  samvinnuna í nyrstu hlutum ríkjanna.

Guðlaugur Þór heldur nú á fund þátttökuríkja í sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) í Helsinki, sem stendur fram á fimmtudag. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira