Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundaði með forseta Frakklands í París

Mynd/Thibault Pomares - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í dag fund með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, en síðast fór slíkur fundur fram árið 1999.

Á fundi sínum ræddu þau tvíhliða samskipti Íslands og Frakklands og möguleika aukins samstarfs landanna, ekki hvað síst á sviði loftslagsmála, nýsköpunar og grænna lausna og jafnréttismála. Þá fóru þau yfir stöðu mála hvað varðar COVID-19 og baráttuna gegn faraldrinum í heiminum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Það eru mikil tækifæri í auknu samstarfi Íslands og Frakklands, ekki síst á sviði umhverfis- og jafnréttismála. Ég og forsetinn ræddum sérstaklega endurnýjanlega orku og áætlanir landanna í þeim efnum og málefni hafsins, ekki síst plastmengun. Þá ræddum við jafnréttismál, sérstaklega út frá vinnumarkaðnum og launajafnrétti. Ég ræddi sérstaklega mikilvægi þess að báðir foreldrar taki þátt í uppeldi barna sinna til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði og aukin lífsgæði fyrir fjölskyldur.“

Katrín er stödd í París í tengslum við formlega opnun átaksverkefnis UN Women, Kynslóð jafnréttis, en ráðstefnan er haldin í samstarfi við frönsk stjórnvöld. Í gærkvöldi sat hún hátíðarkvöldverð í boði forseta Frakklands ásamt öðrum þjóðarleiðtogum og leiðtogum alþjóðastofnana.

 

Mynd/Thibault Pomares

 

Mynd/Thibault Pomares

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum