Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Forsætisráðherra kynnir skuldbindingar Íslands í Kynslóð jafnréttis

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis á ráðstefnu franskra stjórnvalda í París í dag.

Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi forystu og hafa unnið að megináherslum þess og mótun skuldbindinga að aðgerðum og verkefnum til næstu fimm ára. Skuldbindingarnar eiga hvoru tveggja við um aðgerðir sem hafa að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni og ofbeldi hér á landi sem og verkefni sem unnin verða fyrir tilstilli alþjóðasamstarfs og í þróunarsamvinnu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Því miður höfum við séð afturför í jafnréttismálum víða um heim vegna COVID-19 faraldursins. Kynbundið ofbeldi, kynbundin stafræn hatursorðræða og stafrænt kynferðisofbeldi er algengara nú en fyrir faraldurinn. En við sjáum líka sem betur fer kröftuga vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi sem hefur orðið til vegna baráttu kvenna, meðal annars undir merkjum #metoo hreyfingarinnar. Þessi barátta sem á sér stað hér á landi og víða um heim er mikilvæg og nauðsynleg. Við sem samfélag stöndum í þakkarskuld við baráttufólk gegn kynbundnu ofbeldi fyrr og nú og vonandi sjáum við fyrr en síðar fyrir endann á þessu samfélagsmeini.“

Skuldbindingar Íslands eru 23 sem hafa að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi með auknum forvörnum, bættu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi og eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við bæði þolendur og gerendur. Lögð verður áhersla á að ná betur til drengja og karla í forvarnarstarfi og að ráðist verði í aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi og úrbætur í réttarvörslukerfinu sem fylgi eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar í málaflokknum. 

Þá munu íslensk stjórnvöld þrefalda kjarnaframlög til Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNFPA á næstu tveimur árum. Stofnunin gegnir lykilhlutverki þegar kemur að þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis á átakasvæðum og veita kjarnaframlög sveigjanleika til að bregðast við þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Í samstarfi við UN Women ráðast íslensk stjórnvöld í átaksverkefni sem leggur áherslu á þátttöku karla og drengja í forvörnum og aðgerðum sem miða að því að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og stúlkum. Í því augnamiði eykur Ísland framlög sín til UN Women um eina milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmum 123 milljónum króna, til næstu tveggja ára.

Átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis var ýtt úr vör 2020 í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Markmið verkefnisins er að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með aðgerðum til næstu fimm ára, til ársins 2026.

Stefnuskjal um skuldbindingar Íslands

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum