Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ný lög um Fjarskiptastofu taka gildi í dag

Merki Fjarskiptastofu - mynd

Fjarskiptastofa tók við hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar og flestum verkefnum hennar í dag, 1. júlí, þegar ný lög um Fjarskiptastofu tóku gildi. Markmiðið með endurmótaðri stofnun er að mæta þörfum og kröfum samtímans þar sem fjórða iðnbyltingin, stafræn tækni, gervigreind og uppbygging innviða í fjarskiptum er í forgrunni. Í dag taka einnig gildi lagabreytingar sem fela í sér að eftirlit með póstþjónustu færist til Byggðastofnunar en þau verkefni voru áður hjá Póst- og fjarskiptastofnun. 

Helstu nýmæli nýrra laga um Fjarskiptastofu eru m.a. ákvæði um netöryggissveit, ákvæði er varða öryggi og almannavarnir, skýrari heimildir til að greina stöðu fjarskiptaneta og gera útbreiðsluspár fyrir háhraðanet og ný ákvæði um framþróun, rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpun. Auk þess fær stofnunin nýtt nafn til að endurspegla betur hlutverk hennar.

Fjarskiptastofa kynnti í dag nýtt skipulag stofnunarinnar ásamt nýju merki. Endurskoðun skipulagsins hefur staðið yfir í rúmt ár og tók mið af breytingum á lagaumhverfi stofnunarinnar ásamt áherslubreytingum sem umhverfið krefst á hverjum tíma. Skipulagið greinist nú í 5 svið; netöryggissveitin CERT-IS, stafrænt öryggi, stjórnsýsla, fjarskiptainnviðir auk reksturs. 

Miklar breytingar hafa orðið á verkefnum og starfsumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar á síðustu misserum en töluverðar breytingar hafa orðið á löggjöf tengdri fjarskiptum, lénamálum, netöryggi og póstmálum. Ný lög um net- og upplýsingakerfi mikilvægra innviða tóku gildi 1. september 2020. Í kjölfar þess var netöryggissveitin CERT-IS gerð að sjálfstæðri skipulagseiningu og starfsemi hennar efld verulega. Ný lög um íslensk landshöfuðlén voru samþykkt í vor og hafa þegar tekið gildi. Þá var frumvarp til heildarendurskoðunar fjarskiptalaga lagt fram á Alþingi í vetur en náði ekki fram að ganga fyrir þinglok. „Mörg og mikilvæg ný ákvæði er að finna í frumvarpi að nýjum fjarskiptalögum og hefur stofnunin þegar hafið undirbúning innleiðingar þeirra. Stofnunin telur brýnt að ný fjarskiptalög verði afgreidd sem fyrst,“ segir í frétt Fjarskiptastofu.

Fjarskiptastofa segir áhrif þessara breytinga vera að áhersla á ýmiss konar stafræna tækni og öryggi aukist verulega. Einnig verði aukin áhersla lögð á framþróun og nýsköpun, m.a. í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar. Sem fyrr verði einnig lögð áhersla á þróun fjarskiptamarkaðarins og eflingu samkeppni, með aukinni áherslu á innleiðingu nýrrar tækni á hagkvæman hátt. Þetta endurspeglast m.a. í endurskoðaðri framtíðarsýn stofnunarinnar: „Fjarskiptastofa er virkur samstarfsaðili um framþróun öruggs stafræns samfélags og eflingu samkeppni.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum