Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sótti ráðherrafund sameiginlegu viðbragðssveitarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ásamt varnarmálaráðherrum sem þátt tóku í fundi JEF í Helsinki - myndVarnarmálaráðuneyti Finnlands

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í tveggja daga ráðherrafundi þátttökuríkja í sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) sem lauk í Helsinki í dag.

Á fundinum undirrituðu varnarmálaráðherrar þátttökuríkjanna formlega stefnumörkun samstarfsins þar sem lagður er grundvöllur fyrir frekari þróun þess. Í henni er áhersla lögð öryggispólitískt og hernaðarlegt samráð til að tryggja að ríkin búi jafnan yfir sameiginlegum skilningi á öryggisumhverfi þeirra. Sameiginleg gildi eru í hávegum höfð, lýðræðið og alþjóðakerfið sem byggir á alþjóðalögum.

Ráðherrarnir ræddu fyrirkomulag og framtíðarmótun samstarfsins og tóku þátt í skrifborðsæfingu þar sem reynt var á ákvarðanatökuferla við aðstæður þar sem grafið væri undan öryggi ríkjanna með fjölþátta aðferðum. 

„Aðsteðjandi ógnir, hefðbundnar sem fjölþátta, eru á þann veg að þeim verður ekki mætt nema í sameiningu. Því hafa líkt þenkjandi ríki verið að auka samstarf sín á milli. Þessi samstarfsvettvangur er sveigjanlegur í grunninn, til að sníða megi aðgerðir hverju sinni að aðstæðum. Það er meginstyrkleiki samstarfsins að mínu mati og það er þannig raunveruleg viðbót við það samstarf sem þegar er fyrir hendi á þessu sviði,“ segir Guðlaugur Þór.

Bretland leiðir starf sameiginlegu viðbragðssveitarinnar sem Ísland gerðist aðili að 20. apríl sl. þegar samkomulag þessa efnis var undirritað í London. Þátttaka Íslands er á borgaralegum forsendum, eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál, í samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Auk Bretlands og Íslands eru öll Norðurlöndin aðilar að sameiginlegu viðbragðssveitinni, ásamt Í Eystrasaltsríkjunum og Hollandi. 

Í gær átti Guðlaugur Þór fund með James Heappey, ráðherra hernaðarmála í bresku ríkisstjórninni. Á fundinum ræddu þeir tvíhliða samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum og öryggispólitísk málefni sem efst eru á baugi í fjölþjóðasamstarfi á þessu sviði.

„Ísland og Bretland eiga ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Þar eru Bretar að tvíefla varnarviðbúnað sinn. Þéttara tvíhliða samstarf á milli þessara ríkja er því í beggja hag,“ segir Guðlaugur Þór.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira