Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vinnustofa opnuð á Selfossi fyrir störf án staðsetningar

Við undirritun samstarfssamnings um þróun á aðstöðu í Landsbankahúsinu á Selfossi fyrir störf án staðsetningar. F.v. eru Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Svf. Árborgar, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag samning um þróun aðstöðu fyrir störf án staðsetningar í Landsbankahúsinu á Selfossi. Um er að ræða samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélags og atvinnulífs sem byggir á hugmyndafræði um störf án staðsetningar og er mikilvægur hluti af byggðaáætlun. Auk ráðherra undirrituðu samkomulagið þau Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Svf. Árborgar, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags.

Aðstaðan hefur fengið nafnið Bankinn vinnustofa og þar verður boðið upp á skrifstofuaðstöðu fyrir um 120 manns, fundarherbergi og setustofur. Hægt verður að halda fyrirlestra og ýmsa viðburði. Í vinnustofunni gefst þeim sem búa á Selfossi og nágrenni og sækja vinnu hjá ríkinu á höfuðborgarsvæðinu tækifæri til að starfa alla vinnuvikuna eða hluta hennar í heimabyggð. Smærri sunnlensk fyrirtæki og einyrkjar geta einnig átt vísan stað í þessari nýju aðstöðu. Stefnt er að því að opna aðstöðuna síðsumars.

„Störf án staðsetningar er hugmyndafræði sem veitir byggðum landsins stórkostlegt tækifæri til að vaxa og dafna. Það samstarf sem felst í sameiginlegri undirritun ríkisins, sveitarfélagsins, Samtaka atvinnulífsins og einkaaðila á Selfossi færir stefnuna um störf án staðsetningar af hugmyndastiginu yfir í markvissar aðgerðir og uppbyggingu, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.

Mikilvægt tilraunaverkefni

Verkefnið er mikilvægt tilraunaverkefni til tveggja ára sem hefur það að leiðarljósi að innleiða og þróa verkefnið „Störf án staðsetningar“ sem er hluti af byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í verkefninu verður ávinningur þess metinn að starfsmenn ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu hafi með starfsaðstöðu utan veggja stofnana að hluta eða öllu leyti og hvort og þá hvaða áhrif það kunni að hafa á starfsemi höfuðstöðva. Verkefninu er jafnframt ætlað að vera fyrirmynd fyrir sambærilegar starfsstöðvar um land allt.

Verkefnið styður við atvinnu- og byggðaþróun á landsbyggðinni með fleiri störfum án staðsetningar má draga úr ferðaþörf og styðja við aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Þar sem fjölmargir ríkisstarfsmenn eiga lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg og nærliggjandi sveitarfélögum og starfa hjá stofnunum með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu standa vonir til þess að tilraunaverkefnið skapi mikilvæga reynslu sem byggja megi á til lengri tíma.

Ríkið, sveitarfélagið Árborg og Samtök atvinnulífsins koma að tilraunaverkefninu í tvö ár en beint fjárframlag ríkisins nemur allt að 30 milljónum kr. á samningstímanum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

„Tæknilega er hægt að vinna mörg störf heiman frá sér með fjarbúnaði, en fyrir starfsfólk er gríðarlega mikilvægt að vera innan um aðra, að vera hluti af daglegu vinnusamfélagi sem á landsbyggðinni fæst einmitt með því að leiða fólk úr ólíkum greinum saman á fallegum stærri vinnustað eins og hér er stefnt að. SA styður þetta framtak með heilum hug og hvetur allt atvinnulífið til að kynna sér verkefnið á næstu mánuðum.“

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg 

„Verkefnið eykur aðdráttarafl Árborgar sem búsetukost fyrir vel menntað fólk í ábyrgðarstöðum. Fólk með góða menntun og mörg atvinnutækifæri sækist eftir fallegu og nútímalegu vinnuumhverfi; góðu aðgengi að nýrri tækni og áhugaverðum félagsskap. Um er að ræða einstakt tækifæri til að skapa á Selfossi vandaðan og áhugaverðan vinnustað og vinnusamfélag sem eykur atvinnutækifæri og nýsköpun, byggir upp þekkingarklasa, eykur hagnýtingu í þróun skrifstofurýma fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og gefur sveitarfélaginu einstakt tækifæri til að taka forystu á landsvísu í nútíma atvinnuuppbyggingu.“

Vignir Guðjónsson framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags

„Samstarf við þessa þrjá aðila, ríki, sveitarfélag og atvinnulíf, er undirstaðan sem þarf til þess að svona verkefni geti farið af stað. Framkvæmdir eru hafnar innanhúss við að gera þetta frábæra hús tilbúið fyrir nýtt hlutverk, og nú er það okkar að kynna heimamönnum og fyrirtækjum möguleikana, sjá til þess að tilraunin skili árangri og Bankinn vinnustofa verði eftirsóttur valkostur fyrir fólk og fyrirtæki til framtíðar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira