Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með Sviatlönu Tsikhanouskayu

Guðlaugur Þór Þórðarson og Sviatlana Tsikhanouskaya á fréttamannafundi í utanríkisráðuneytinu í morgun - myndUtanríkisráðuneytið

Staða mannréttinda í Belarús og stuðningur íslenskra stjórnvalda við málstað umbótahreyfinga þar í landi voru aðalumræðuefnið á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Sviatlönu Tsikhanouskayu, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús í morgun.

Sviatlana Tsikhanouskaya er stödd hér á landi í boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Á fundi þeirra í utanríkisráðuneytinu í morgun ræddu þau stöðu mannréttinda í Belarús og aðför þarlendra stjórnvalda að friðsömum mótmælendum sem hafa knúið á um lýðræðisumbætur.

„Allt frá því að meingallaðar forsetakosningar voru haldnar í Belarús í fyrrasumar hafa íslensk stjórnvöld gagnrýnt framgöngu ríkisstjórnar Alexanders Lúkasjenkó og lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu mannréttinda og lýðræðis þar. Við höfum um stutt málstað lýðræðisaflanna í landinu og í því skyni bauð ég Tsikhanouskayu í heimsókn til að heyra frá fyrstu hendi áform hennar og stöðumat,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingar til stuðnings mannréttindum og lýðræði í Belarús og Ísland hefur staðið að sameiginlegum yfirlýsingum með Norðurlöndunum og í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8), m.a. á opnum fundi öryggisráðs SÞ, á vettvangi mannréttindaráðsins og ÖSE. Þá styður Ísland frjáls félagasamtök í Belarús og tekur þátt í refsiaðgerðum vestrænna ríkja gagnvart Lúkasjenkó-stjórninni.

„Ég tjáði Tsikhanouskayu á fundi okkar að hún gæti áfram treyst á stuðning Íslands í baráttu sinni fyrir þeim borgaralegu réttindum sem okkur þykja sjálfsögð en eru það alls ekki í heimalandi hennar. Um leið höldum við áfram að þrýsta á stjórnvöld í Belarús að virða mannréttindi, láta pólitíska fanga lausa úr fangelsi, hætta ofsóknum gegn friðsömum mótmælendum og boða til frjálsra og sanngjarna kosninga í samræmi við vilja þjóðarinnar,“ segir Guðlaugur Þór.

Eftir fund þeirra Guðlaugs Þórs heimsótti Tsikhanouskaya Alþingi þar sem hún hitti meðal annars forseta Alþingis og fulltrúa í utanríkismálanefnd og alþjóðanefndum. Síðdegis á hún fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og flytur erindi á opnum fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Þar flytur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra opnunarávarp og pallborðsumræður verða að erindinu loknu.

 

  • Guðlaugur Þór býður Sviatlönu Tsikhanouskayu velkomna í utanríkisráðuneytið - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum