Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Markvissari kennsla um kynheilbrigði og virkar ofbeldisforvarnir

Starfshópur mennta- og menningarmálaráðherra hefur skilað tillögum sínum um markvissari kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum. Sólborg Guðbrandsdóttir formaður hópsins afhenti Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra afrakstur vinnunnar á dögunum.

Í skýrslu hópsins er fjallað um hugmyndafræði kynheilbrigðis og alhliða kynfræðslu, lagalega skyldu og samþykktir en jafnframt um aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla. Tillögur starfshópsins lúta að umgjörð og framkvæmd kynfræðslunnar en einnig því hvernig fylgjast skuli með framgangi hennar, þær eru meðal annars:

  • Að kynfræðslan verði gerð að skyldufagi fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum og hefjist við upphaf grunnskólagöngu.
  • Að menntun í kennslu kynheilbrigðis sé í boði í grunnnámi kennara.
  • Að skólahjúkrunarfræðingar starfi einnig í framhaldsskólum.
  • Að framboð á gagnreyndu námsefni um kynfræðslu og kynheilbrigði sé aukið og aðgengilegt á fjölbreyttu formi (t.d. myndböndum, lesefni og gagnvirku efni) og að horft sé til þess að slíkt efni höfði til ólíkra hópa barna og unglinga.
  • Að gerð verði stöðukönnun á fimm ára fresti um framkvæmd kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins þar sem fram kemur viðhorf skólastjórnenda, nemenda, kennara og annarra sem sinna kynfræðslu.
  • Að til sé viðbragðsáætlun hjá skólum vegna kynferðislegs eða kynbundins ofbeldis.
  • Að fagfólki sem sinnir kennslu um kynheilbrigði í skólum og félagsmiðstöðvum, s.s. kennara, skólahjúkrunarfræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga, námsráðgjafa o.fl., bjóðist starfsþróunarnámskeið til að bæta við þekkingu sína.

Tillögur hópsins eru nú til umfjöllunar og frekari rýni á vettvangi mennta- og menningarmálaráðuneytisins en sterkan samhljóm má finna í þeim með ýmsum áherslusviðum og aðgerðum sem þegar í deiglunni, m.a. vegna vinnu við fyrstu aðgerðaáætlun nýrrar menntastefnu sem kynnt verður í haust, aðgerðaáætlun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum