Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2021 Innviðaráðuneytið

Ríki og borg undirrita yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við undirritun yfirlýsingar um lagningu Sundabrautar. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu í dag yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. Stefnt er að því að framkvæmdir við Sundabraut hefjist árið 2026 og að brautin verði tekin í notkun árið 2031. Ríki og borg sammælast um það í yfirlýsingunni að Sundabraut verði lögð alla leið í Kjalarnes í einni samfelldri framkvæmd og að alþjóðleg hönnunarsamkeppni verði haldin um útlit Sundabrúar, verði hún fyrir valinu. Í yfirlýsingunni segir að næsta skref sé að gera félagshagfræðilega greiningu á þverun Kleppsvíkur en að henni lokinni verði hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar, sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabraut.

Yfirlýsingin er afrakstur af góðu samstarfi og víðtækum undirbúningi ráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðarinnar og Faxaflóahafna samhliða vinnu við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Sundabraut var ekki hluti af framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans en í sáttmálanum segir að sérstaklega skuli huga að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.

„Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og verður gríðarleg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu – og fyrir alla ferðamáta. Brúin verður aðgengileg fyrir gangandi og hjólandi og verður kennileiti borgarinnar. Yfirlýsingin markar tímamót því nú getum við brett upp ermar og hafist handa. Sundabrautin er efst á verkefnalistanum mínum. Við kynntum legu brautarinnar í byrjun febrúar og nú hefst næsti kafli umhverfismats, samráðs og hönnunar. Það er góður tími til að fara í opinberar framkvæmdir, sem skapa atvinnu á öllum stigum verkefna og auka hagvöxt í landinu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Ég fagna þessari yfirlýsingu. Það er mikilvægt að leiðarval og undirbúningur Sundabrautar sé í traustum og góðum farvegi og að verkefnið sé unnið í víðtæku samráði. Þessi yfirlýsing tryggir það og undirstrikar mikilvægi samráðs við íbúa og hagsmunaaðila í næstu skrefum. Sundagöng og Sundabrú eru áfram megin valkostirnir. Í kjölfar félagshagfræðilegrar greiningar tekur við frekari samanburður og rýni á öllum umhverfisþáttum og mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi. Yfirlýsingin tryggir einnig að hagmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina ásamt hafnarstarfsemi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Í vetur var kynnt skýrsla starfshóps um legu Sundabrautar, en í henni sátu fulltrúar Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahafna. Þar voru metnir tveir valkostir við þverun Kleppsvíkur, annars vegar Sundabrú, sem tengist Sæbraut til móts við Holtaveg og hins vegar Sundagöng.

Niðurstaða hópsins var að Sundabrú væri um 14 ma.kr. ódýrari kostur en Sundagöng miðað við frumkostnaðaráætlun, auk þess sem brúin hefði ýmis jákvæð áhrif umfram göngin, s.s. á heildarakstur og tímasparnað umferðar á höfuðborgarsvæðinu, almenningssamgöngur, hjóla- og gönguleiðir. Jarðgöng myndu á hinn bóginn hafa nokkuð minni sjónræn áhrif og brúarframkvæmdir hefðu meiri áhrif á hafnarstarfsemi á framkvæmdatíma. Ein af forsendum beggja leiða er að Sæbraut verði lögð í stokk, sbr. 5. gr. samgöngusáttmálans. 

Félagshagfræðileg greining

Í yfirlýsingunni segir að næsta skref í verkefninu sé að ljúka félagshagfræðilegri greiningu á þessum tveimur kostum við þverun Kleppsvíkur þar sem m.a. er greindur og metinn afleiddur kostnaður og áhrif á starfsemi í Sundahöfn og nærliggjandi íbúðarhverfi. 

Tekið verður fullt tillit til hagsmuna Faxaflóahafna við Sundahöfn og lagt verður mat á umframkostnað hafnarinnar, sem með skýrum hætti megi rekja til framkvæmdarinnar. Þá verði rask á hafnarstarfsemi lágmarkaði með tilheyrandi úrbótum áður en að vegaframkvæmdum kemur.

Breytingar á aðalskipulagi

Að lokinni félagshagfræðilegri greiningu verður hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabrautar. Stuðst verður við umhverfismat framkvæmdarinnar og rík áhersla lögð á samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila í öllum þáttum skipulags og umhverfismats. Samhliða undirbúningi skipulags og umhverfismats verða skoðaðar líklegar breytingar á dreifingu umferðar og hvernig bregðast megi við mögulegum neikvæðum áhrifum á íbúðahverfi á áhrifasvæði Sundabrautar.

Í yfirlýsingunni sammælast ríki og borg um að Sundabraut verði lögð alla leið á Kjalarnes, í einni samfelldri framkvæmd, en ekki aðeins í Gufunes, til að ná markmiðum verkefnisins að fullu og til að beina umferð ekki óhóflega um íbúahverfi Grafarvogs.

Kveðið er á um það í yfirlýsingunni að framkvæmdin taki einnig mið af umferð fyrir gangandi og hjólandi og tryggi góðar hjólasamgöngur upp á Kjalarnes.

Alþjóðleg hönnunarsamkeppni um Sundabrú

Ríkar kröfur verða gerðar varðandi útlit og ásýnd Sundabrautar. Ríki og borg eru sammála um að efna til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um Sundabrú, verði hún fyrir valinu, í ljósi þess hversu áberandi það verður í borgarmyndinni.

Fjármögnun með veggjöldum

Í yfirlýsingunni er staðfest að Sundabraut verði fjármögnuð með veggjöldum og ekki er gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði. Sundabraut er meðal sex samgöngumannvirkja sem falla undir lög um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem heimila að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma. Gjaldtaka skal þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og stendur að hámarki í 30 ár.

Sömuleiðis kveður yfirlýsingin á um að tengingar Sundabrautar við gatna- og stígakerfi borgarinnar, sem með skýrum hætti leiða af framkvæmdinni, greiðist af Sundabrautarverkefninu en ekki úr borgarsjóði.

 
  • Lega Sundabrautar annars vegar með Sundabrú yfir Kleppsvík og hins vegar frá Gufunesi yfir á Kjalarnes - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpar gesti við undirritun yfirlýsingarinnar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum