Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Verðlaun afhent í Netöryggiskeppni Íslands

Hluti keppenda í Netöryggiskeppni Íslands með viðurkenningar sínar og verðlaun ásamt Hjalta Magnússyni (l.t.v.) formanni dómnefndar og Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (l.t.h.). - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, færði í gær þátttakendum og sigurvegurum í Netöryggiskeppni Íslands viðurkenningar sínar og verðlaun. Netöryggiskeppnin er árlegur viðburður sem haldinn er að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, til þessa í samvinnu við netöryggisfyrirtækið Syndis. Keppnin var haldin í annað sinn í ár en vegna faraldursins fór hún eingöngu fram á netinu. Að lokinni forkeppni var landskeppni haldin dagana 20.-21. mars. Vegna samkomutakmarkana var verðlaunahátíð ekki haldin fyrr en nú.

Að þessu sinni unnu 19 keppendur á aldrinum 16-25 ára sér rétt til þátttöku í landskeppninni. Í keppninni tókust keppendur á við flókin verkefni sem byggjast á raunverulegum viðfangsefnum á sviði netöryggis. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun, en meðal verkefna var að brjótast inn á vefsíður, ráða úr dulkóðuðum gögnum og gera tilraun til að misnota galla í forritum til að taka yfir tölvur. 

Keppnin var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en á lokametrunum. Keppt var í tveimur aldursflokkum og urðu niðurstöðurnar eftirfarandi. Eins og sjá má gáfu yngri keppendur þeim eldri ekkert eftir.

Yngri flokkur (14-20 ára)

  • Elvar Árni Bjarnason (12.000 stig)
  • Samúel Arnar Hafsteinsson (7.350 stig)
  • Kristinn Vikar Jónsson (6.350 stig)

Eldri flokkur (21-25 ára)

  • James Elías Sigurðarson (11.150 stig)
  • Níels Ingi Jónasson (10.850 stig)
  • Logi Eyjólfsson (5.200 stig)

Þátttaka í Netöryggiskeppni Evrópu

Á grunni úrslita í landskeppninni verða tíu einstaklingar valdir í landslið, sem stefnt er að senda í Netöryggiskeppni Evrópu, European Cyber Security Challenge (ECSC), sem fer fram í Prag í lok september á þessu ári. Samkvæmt reglum ECSC verða keppendur að vera á bilinu 14-25 ára (fædd á árunum 1996 til og með 2007).

Markmið keppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á netöryggi og hvetja ungt fólk til þess að mennta sig á því sviði og gera netöryggi að atvinnu sinni. Þrátt fyrir mikilvægi netöryggis skortir enn fleira hæfileikaríkt fólk til að takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Þess vegna setti Netöryggisstofnun Evrópu, ENISA, á laggirnar Netöryggiskeppni Evrópu og Evrópuþjóðir halda síðan eigin landskeppnir. 

Fyrsta heimsmeistarakeppnin í netöryggi

Einnig er í undirbúningi að halda fyrstu heimsmeistarakeppni í netöryggi (ICSC 2021), sem sniðin er eftir Netöryggiskeppni Evrópu. Í stað liða frá einstökum löndum keppa lið heimsálfanna. Í liði Evrópu verða allt að 15 keppendur á aldrinum 18-26 ára. Nú eru 37 fulltrúar frá 17 löndum Evrópu að æfa sig fyrir að keppa í liði Evrópu, þar af 2 frá Íslandi. Valið verður í lið Evrópu þegar nær dregur keppninni að lokinni þjálfun og æfingum. Hluti þessarar þjálfunar er þátttaka í þjálfunarbúðum í Eistlandi síðar í þessari viku og taka íslensku þátttakendurnir þátt í þeirri þjálfun. Áætlað er að heimsmeistarakeppnin verði síðan haldin í Grikklandi í lok ársins, í desember. 

Keppni og þjálfun í Eistlandi fyrir upprennandi keppendur

Loks má nefna að Íslandi hefur verið boðið að senda fimm manna lið í netöryggiskeppni á vegum eistnesks fyrirtækis, sem er mjög framarlega í netöryggisþjálfun og æfingum fyrir ýmsa aðila, þ.á m. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Fyrirtækið hefur boðið liðum frá Eistlandi, öðrum Eystrasaltsríkjum og Norðurlöndum að taka þátt í keppninni. Markmiðið með þessari þjálfun og keppni er ekki að finna og þjálfa þau sem eru orðin best, heldur að efla áhuga sem flestra með því að gefa þeim sem eru orðin góð kost á að verða mun betri. Þjálfunin fer fram sem fjarþjálfun og keppnin verður haldin í Tartu í Eistlandi í lok október, en það mun einnig verða unnt að taka þátt í keppninni á Netinu.

 
  • F.v.: Hjalti Magnússon, formaður dómnefndar, Elvar Árni Bjarnason sigurvegari í yngri flokki og stigahæsti keppendinn í báðum flokkum, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra..

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira