Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Að kunna að sigra

Í leik og starfi telst það góður eiginleiki að kunna að tapa. Taka ósigri með reisn, læra af reynslunni og nýta hana til góðs. Að sama skapi er mikilvægt að kunna að sigra. Sýna hógværð þegar vel gengur, sýna aðstæðunum virðingu og gæta þess að vanmeta ekki fyrirliggjandi áskoranir.

Þótt enn sé ótímabært að lýsa yfir sigri í baráttunni við Covid-19 geta Íslendingar glaðst yfir góðum árangri. Staðan er góð, mikill meirihluti fullorðinna hefur verið bólusettur og samkomutakmörkunum innanlands hefur verið aflétt. Sú staðreynd lyftir lundinni, stuðlar að hagvexti og leysir margvíslega starfsemi úr hlekkjum kórónu-veirunnar. Þannig er óendanlega gaman að sjá menningarstarf komast á fulla ferð, sjá tónleikahald glæðast og forsendur fyrir leikhússtarfi gjörbreytast til hins betra. Fjöldasamkomur eru nú leyfilegar, hvort sem fólk vill sækja í tónlistarhúsið Hörpu, samkomuhúsið á Akureyri eða bæjarhátíðir um land allt. Stór og smá leikhús horfa björtum augum til haustsins og menningarþyrstir landsmenn geta loksins svalað þorstanum, um leið og listamenn geta að nýju aflað sér fullra tekna eftir langa bið. Ferðaþjónustan hefur tekið við sér og flest horfir til betri vegar.

Í þessum aðstæðum er rétt að rifja upp lífsspekina um drambið og fallið. Hvernig oflát getur snúið góðri stöðu í slæma og hvað við getum lagt af mörkum til að viðhalda árangrinum í Covid-stríðinu. Við þurfum að kunna að sigra, sýna aðstæðunum virðingu en ekki missa stöðuna frá okkur. Gárungarnir töluðu um vímuskyldu sem eðlilegt framhald grímuskyldu og ef marka má fréttir af næturlífinu undanfarna daga virðast ýmsir hafa tekið þá á orðinu. Vonandi rjátlast það fljótlega af skemmtanaglaðasta fólkinu, enda er baráttunni við Covid-19 ekki lokið. Við þurfum að halda áfram að sýna ábyrgð og í leiðinni meta hvað við getum lært af reynslu undanfarinna 16 mánaða, svo einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geti brugðist rétt við.

Stjórnvöld þurfa einnig að meta hvort árangurinn af stuðningi við atvinnulíf og félagasamtök hafi verið nægur og opinbert fé hafi nýst sem skyldi. Sú umræða er að eiga sér stað. Við höfum öll í sameiningu lifað sögulega tíma. Ljóst er að það reynir á samfélagið okkar í framhaldinu, en við höfum alla burði til að koma sterkari út úr þessari áskorun.

Horfurnar eru góðar og sumarleyfistíminn er genginn í garð. Björt sumarnóttin er táknræn fyrir góðan árangur, sem okkur ber að varðveita í sameiningu.

-

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 7. júlí 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum