Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

ESA staðfestir lögmæti stuðnings við sumarnám

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið athugun sinni á styrkjum sem voru veittir háskólum til að bjóða upp á sumarnám á síðasta ári. Niðurstaða ESA er að þessi sértæku námsúrræði hafi ekki falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð og stuðningurinn því heimill. 

Markmið íslenskra stjórnvalda með auknu framboði hagstæðra námsúrræða sumarið 2020 var bregðast við neikvæðum áhrifum og skerðingu á skólastarfi sem hlaust af heimsfaraldri, ásamt því að bregðast við atvinnuleysi meðal ungs fólks og fyrirsjáanlega skertu framboði sumarstarfa fyrir námsmenn.

ESA barst kvörtun frá Félagi atvinnurekenda í júní 2020 þar sem því var haldið fram að íslensk stjórnvöld hefðu veitt ólögmæta ríkisstyrki til þriggja háskóla með því að veita þeim 500 millj. kr. viðbótarframlög til að skipuleggja sumarnámskeið. Af hálfu Félags atvinnurekenda var því haldið fram að hinir ólögmætu ríkisstyrkir hefðu veitt umræddum háskólum óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart einkareknum fræðsluaðilum sem bjóða upp á sambærileg námskeið sem sé í andstöðu við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins.

Með því að bjóða viðbótarframlög fyrir sumarnámskeið, sem þegar innritaðir og nýjir námsmenn áttu kost á að skrá sig í, leituðust íslensk stjórnvöld við að rækja skyldur sínar til að bjóða upp á nám í boði hins opinbera á háskólastigi, fremur en að taka þátt í efnahagslegri starfsemi.

Niðurstaða ESA er því að viðbótarframlög íslenskra stjórnvalda til sumarnáms í háskólum hafi ekki falið í sér ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. Samningsins um evrópska efnahagssvæðið.

Niðurstsöðu ESA í heild sinni má nálgast hér. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum