Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra kynnti breytingar í þágu barna á alþjóðlegum viðburði UNICEF og Sameinuðu Þjóðanna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti breytingar í þágu barna á alþjóðlegum viðburði UNICEF og Sameinuðu Þjóðanna.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hélt erindi á fundi UNICEF og Sameinuðu Þjóðanna um mikilvægi fjárfestingar í velferðarþjónustu og snemmtækum stuðningi við börnum. Í erindi sínu kynnti ráðherra þær umfangsmiklu kerfisbreytingar í þágu barna og fjölskyldna sem unnið hefur verið að síðastliðin fjögur ár. Fundurinn er hluti af High Level Political Forum, sem er vettvangur valkvæðra úttekta á innleiðingu Heimsmarkmiða S.Þ. Hann er skipulagður af UNICEF og fulltrúa aðalritara Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, Dr. Najat Maalla M´jid.

Í erindi sínu kynnti ráðherra þær umfangsmiklu kerfisbreytingar sem hann hefur unnið að hér á landi og byggja á að setja upp nýtt velferðarkerfi fyrir börn á Íslandi. Markmið þess er að tryggja að börn og fjölskyldur þeirra fái nauðsynlega þjónustu snemma og verði ekki send á eigin ábyrgð milli aðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana án aðstoðar. Lög um þessar kerfisbreytingar voru samþykkt af Alþingi á nýafstöðnu þingi. Í erindi sínu sagði ráðherra einnig frá hagrænu mati sem unnið var á innleiðingu þessa nýja velferðarkerfis, en niðurstöður þess benda til að hagrænn ávinningur af aðgerðunum sé gríðarlega mikill og fjárfestingin ein sú arðbærasta sem stjórnvöld geta farið í.

Fundurinn er vettvangur fyrir aðildarríki sameinuðu þjóðanna sem taka þátt í landrýni vegna innleiðingar Heimsmarkmiðanna 2021. Íslensk stjórnvöld tóku þátt í slíkri landrýni 2019. Á vinnustofunni er aðildarríkjunum boðið að kynna verkefni og aðgerðir sem teljast góð fordæmi/fyrirmyndir fyrir önnur ríki. Þó Ísland sé ekki í úttekt í ár var Ásmundi Einari boðið af UNICEF og Sameinuðu Þjóðunum að kynna þær umfangsmiklu kerfisbreytingar í þágu barna og fjölskyldna sem ráðherrann hefur unnið að síðastliðin fjögur ár. En þær áherslur vekja sívaxandi athygli erlendis og voru kynntar á vinnustofunni sem fyrirmynd fyrir önnur ríki

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það var mjög ánægjulegt að fá að fara yfir þær víðtæku breytingar sem við erum að ráðast í hér á Íslandi í málefnum barna með fulltrúum UNICEF og Sameinuðu Þjóðanna. Sú vinna sem við höfum verið í hér á landi hefur vakið heimsathygli og ég finn fyrir miklum áhuga í mörgum löndum á að breyta um nálgun á þessum málaflokki. Ekki bara horfa á hvað ríki eru að setja mikla peninga í málefni barna heldur líta á þetta sem arðsama fjárfestingu sem skilar sér svo um munar til lengri tíma.”

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum