Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Gildandi samkomutakmarkanir innanlands framlengdar um tvær vikur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis að framlengja gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir um tvær vikur, þ.e. til og með 27. ágúst. Áfram verður því kveðið á um 200 manna fjöldatakmarkanir, 1 metra nálægðarreglu m.a. í verslunum og öðru opinberu húsnæði og óbreyttar reglur um grímunotkun. Meðfylgjandi minnisblað sóttvarnalæknis með tillögu um framlengingu samkomutakmarkana ásamt áhættumati var rætt á fundi ríkisstjórnar í dag.

Í minnisblaðinu er rakin þróun smita frá gildistöku reglugerðar um samkomutakmarkanir 23. júlí síðastliðinn, fjallað um stöðuna á Landspítalanum, sýnatöku, smitrakningu og fleira. Frá því að reglugerðin tók gildi hefur fjöldi greindra smita dag hvern verið með því mesta frá upphafi heimsfaraldursins. Hlutfall jákvæðra sýna af einkennasýnum hefur verið á bilinu 2,5-5% og haldist nokkuð stöðugt.

Ekki tímabært að aflétta aðgerðum innanlands

Sóttvarnalæknir bendir á að fjöldi smita dag frá degi hafi ekki allt að segja um áhrif faraldursins á Landspítala. Nú sé unnið að nánari greiningu á því hve góða vernd bólusetningin veitir gegn alvarlegum veikindum meðal viðkvæmra hópa og almennt, byggt á áhættuflokkum fyrir bólusetningu, áhættuflokkum göngudeildar og aldri. Fram kemur að meira en helmingur einstaklinga 70 ára og eldri sem greinst hafa í þessari bylgju sé á fyrstu viku veikinda og því sé ekki komin reynsla af því hvernig gangur veikinda verður hjá þessum hópi. Í þessu ljósi telur sóttvarnalæknir ekki tímabært að aflétta aðgerðum innanlands.

Samtal við hagsmunaaðila um sóttvarnir

Heilbrigðisyfirvöld leggja áherslu á að eiga áfram samtal við hagsmunaaðila varðandi samkomutakmarkanir og fyrirkomulag sóttvarnaaðgerða eftir því sem aðstæður breytast, meðal annars við menningarstofnanir og íþróttahreyfinguna.

--------------------------

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum