Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið

Ráðstefna og heimsfundur kvennasamtaka í Hörpu 16.-18. ágúst

Reykjavík Dialogue hefst í Hörpu 16. ágúst nk. og stendur til 18. ágúst. Viðburðurinn er helgaður baráttunni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Annars vegar er um að ræða alþjóðlega ráðstefnu frá 16.-17. ágúst og hins vegar heimsfund aðgerðasinna og kvennasamtaka frá 17.-18. ágúst.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur opnunarávarp á ráðstefnunni en þar  verða ræddar leiðir innan og utan réttarkerfisins til að tryggja hagsmuni brotaþola kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Þátttakendur í pallborðum ráðstefnunnar munu líta bæði til hefðbundinna og óhefðbundinna nálgana er varða réttlæti í kynferðisbrotamálum. Meðal umfjöllunarefna eru uppbyggileg réttvísi, umbreytandi réttlæti, samfélagslegt réttlæti og arfleifð nýlendustefnu og kynþáttahyggju. Ráðstefnunni lýkur með málstofu þar sem helstu niðurstöður í umræðum pallborðanna verða dregnar saman. 

Heimsfundur kvennasamtaka og aðgerðarsinna sem berjast gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi hefst eftir að ráðstefnunni lýkur á hádegi 17. ágúst og stendur til 18. ágúst. Þar verða lögð drög að yfirlýsingu um aðgerðir til að binda enda á ofbeldi gegn konum og stúlkum til næstu fimm ára. Yfirlýsingin verður afhent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að fundi loknum.

Reykjavík Dialogue er skipulögð í samstarfi forsætisráðuneytisins og RIKK-Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Alþjóðleg verkefnisstjórn með þátttöku fulltrúa frá ólíkum heimshlutum skipuleggur fundinn. Ríkisstjórn Íslands styrkir viðburðinn ásamt Reykjavíkurborg og Norrænu ráðherranefndinni.

Ráðstefnan og heimsfundurinn eru opin öllum sem skrá sig. Skráning fer fram á vefsíðu Reykjavík Dialogue: reykjavikdialogue.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum