Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir tillögur flóttamannanefndar

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra, félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra um að fallast á tillögur flóttamannanefndar vegna þess ófremdarástands sem hefur skapast í Afganistan í kjölfar valdatöku talibana.

Flóttamannanefnd var kölluð saman að beiðni Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, til þess að útfæra tillögur um hvernig bregðast mætti við neyðarástandinu í landinu. Nefndin sendi tillögur sínar til félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Með tillögum flóttamannanefndar er stutt við þær fjölskyldur sem eru hér á landi og eiga rétt á sameiningu við fjölskyldumeðlimi í Afganistan. Þá verður lögð áhersla á að aðstoða einstaklinga sem eru í bráðahættu vegna starfa sinna í Afganistan, hvort sem það er fyrir Atlantshafsbandalagið eða á sviði jafnréttismála. Fyrstu viðbrögð og aðgerðir stjórnvalda samkvæmt tillögum flóttamannanefndar eru eftirfarandi:

  • Tekið verður á móti starfsfólki sem vann með og fyrir Atlantshafsbandalagið, ásamt mökum þeirra og börnum. Horft verður sérstaklega til þeirra sem störfuðu með íslensku friðargæslunni.  
  • Fyrrverandi nemendum frá Afganistan við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi (GRÓ-GEST), ásamt mökum og börnum, verður boðið til landsins.
  • Íslensk stjórnvöld munu aðstoða þá Afgana sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu eða eru komnir nú þegar með dvalarleyfi hér á landi en geta ekki ferðast á eigin vegum að komast til landsins. Um er bæði að ræða einstaklinga sem hafa fjölskyldutengsl hér sem og einstaklingar sem hyggjast hefja hér nám.
  • Umsóknir um fjölskyldusameiningu, samkvæmt lögum um útlendinga, við Afgana búsetta hér landiverða settar í forgang og aukið við fjárveitingar til þess að hraða umsóknunum.

Heildarfjöldi þeirra sem tekið verður á móti liggur ekki endanlega fyrir en áætlað er að hann verði allt að 120 manns. Erfitt er að meta fjöldann nákvæmlega þar sem hann fer eftir fjölskyldusamsetningu. Ísland hefur hingað til tekið á móti afgönsku kvótaflóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og mun halda því áfram en í ljósi þess neyðarástands sem nú hefur skapast í Afganistan er hins vegar mikilvægt að íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum nú þegar.

Flóttamannanefnd leggur enn fremur til að stofnaður verði aðgerðahópur sem hefur það hlutverk að útfæra framkvæmd tillagnanna en ljóst er að hún er flókin þar sem huga þarf að flutningi fólksins til landsins, tryggja öryggi þess og nauðsynlega aðstoð við komu til landsins. Í flóttamannanefnd sitja fulltrúar félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Auk þess sitja áheyrnarfulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Útlendingastofnun fundi nefndarinnar.

Ríkisstjórnin hefur óskað eftir því að flóttamannanefnd vinni áfram að málefnum flóttafólks frá Afganistan á komandi vikum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum