Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2021 Félagsmálaráðuneytið

Setja af stað tilraunaverkefni um meðferð við áföllum

Frá undirritun samningsins - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur gert samning fyrir hönd félagsmálaráðuneytisins við Rótina og Hlaðgerðarkot vegna tilraunaverkefnis um áfallameðferð. Rótin og Hlaðgerðarkot hafa undanfarna mánuði haldið þrjú gagnreynd, áfalla- og kynjamiðuð námskeið í Hlaðgerðarkoti, tvö fyrir konur og eitt fyrir karla. Samningurinn gerir Rótinni og Hlaðgerðarkoti mögulegt að þróa námskeið vegna áfallameðferðar enn frekar og halda fleiri námskeið fyrir bæði karla og konur, ásamt því að þýða efni sem þeim tengist.

Námskeiðin eru ný hugsun þegar kemur að meðferð einstaklinga eftir áföll og miðast að því að hjálpa og auðvelda einstaklingum að vinna úr áföllum. Niðurstöður þjónustukannanna sem gerðar hafa verið á þeim verkefnum sem hafa þegar verið haldin bera vitni um góðan árangur og ánægju meðal þátttakenda. Ásamt því að lýsa yfir ánægju með námskeiðin hafa þátttakendur lýst því að efni námskeiðanna gagnist þeim á áframhaldandi batagöngu.

Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal er elsta nústarfandi meðferðarstofnun landsins. Í Hlaðgerðarkoti er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða. Í Hlaðgerðarkoti starfar þverfaglegt teymi, læknis, hjúkrunarfræðings, félagsráðgjafa og áfengis- og fíkniráðgjafa ásamt því sem umsjónarmenn eru við störf allan sólahringinn og eru til stuðnings þeim sem eru í meðferð. Í Hlaðgerðarkoti er lögð áhersla á heimilislegt og hlýlegt viðmót og er virðing fyrir einstaklingnum höfð að leiðarljósi.

Rótin er félag um velferð og lífsgæði kvenna. Markmið Rótarinnar er að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefna-vanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra, ásamt því að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mann-réttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Áföll í æsku geta haft gríðarlega mikil áhrif á einstaklinga og fylgja þeim oft í gegnum lífið. Þess vegna er svo mikilvægt að til staðar séu úrræði þar sem fólk fær fræðslu og hjálp við það að vinna úr áföllunum. Með Rótinni og Hlaðgerðarkoti erum við að setja af stað spennandi tilraunaverkefni og nýja nálgun þegar kemur að meðferð við áföllum. Það er gleðilegt að geta stutt við þetta mikilvæga starf.”

Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar: „Kannanir sýna að stór hluti þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, þar á meðal á uppvaxtarárum. Rannsóknir sýna einnig tengsl á milli þessara áfalla og fíknivanda síðar á lífsleiðinni. Við teljum mikilvægt að líta til þessa þátta þegar verið er að leggja grunn að meðferðarstarfi og að auka líkur á langtímaárangri þeirra sem koma til meðferðar. Með samstarfi okkar og Rótarinnar er verið að vinna markvisst að þessum málum og fyrstu kannanir á verkefninu gefa okkur ástæðu til bjartsýni um að verkefnið sé að hafa góð áhrif. Stuðningur félagsmálaráðuneytisins er okkur ómetanlegur til þess að hægt sé að halda verkefninu áfram og sýndur áhugi félagsmálaráðherra á verkefninu gefur okkur byr undir báða vængi.”

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira